Hefðarinnar hringavitleysa

Til hvers í ósköpunum eru Íslendingar endalaust að slá gras án þess að þurfa að heyja fyrir bústofn, kannski má bera því við að nánast allir borgarbúar sem og þorparar á Íslandi eiga uppruna sinn í sveitum landsins. Það er því til staðar hefðin að heyja tún, þó borgarbúar og þorparar hafi í raun og veru ekkert við tún að gera nema til leiks.

Fólk hamast við að tryggja sér góðan grasblett umhverfis húsið með ærnum tilkostnaði, fjárfestir svo í rándýrri sláttuvél ásamt safnhaug og hamast svo við og eyðir nánast öllum frítíma í að slá blettinn. Sólundar fallegu sumri með ófrið og mengandi útblæstri þessa umhverfissóða sem sláttuvélin reynist nú vera.

,,Það er ekki víst að allir átti sig á að olíunotkun á sláttuvélar hefur margvísleg neikvæð áhrif sem auðvelt er að fyrirbyggja. Bensínsláttuvél brennir olíu sem kostar dýrmætan gjaldeyri og mengar andrúmsloftið. Slátturinn veldur einnig miklum hávaða sem pirrað getur nágranna og truflað dýralíf. Gefum okkur að bensínsláttuvél eyði um 20 ml af bensíni á mínútu og að garðeigendur þurfi að jafnaði að slá garðinn átta sinnum yfir sumarið, hálftíma í senn. 

Fimmtíu þúsund garðeigendur nota þá, miðað við gefnar forsendur, um 250.000 lítra af olíu á hverju sumri við garðslátt. Slíkt magn af olíu gæti keyrt smábíl 125 sinnum umhverfis jörðina. Sem betur fer er endingartími sláttuvéla takmarkaður og endurnýjunar þörfin býsna tíð.“

(Grein í Fréttablaðið 02. júní 2011. Höf: Sigurður Friðleifsson framkvæmdastjóri Orkuseturs)

Sjálfur gerði ég uppreisn á heimilinu fyrir nokkrum árum og neitaði að þjóna því kynbundna hlutverki sem garðsláttur virðist vera og tel mig hafa með því ekki bara sparað samfélaginu og mér stórfé, heldur gert lífríkinu mikinn greiða. Eftir að þessum fjandans garðslætti var hætt hefur eðlileg jurtaflóra myndast og jafnvægi milli fjölmargra tegunda er að skapast, garðurinn er litskrúðugur og fugla sem skordýralíf hefur tekið ótrúlega miklum framförum.

Þeim sem vilja er að sjálfsögðu velkomið að puða áfram í þessari garðslátta vitleysu og ímynda sér að þeir séu að heyja eða séu bara svona snyrtilegir, en miðað við þennan snyrtimennsku skilning þá er náttúran ekkert nema endalaus sóðaskapur og skipulagsleysi ekki satt. Gerið nú sjálfum ykkur og lífríkinu þann greiða að hætta þessu og skinsamlegast væri fyrir borgarbúa að minnka sem mest grasfleti og leifa því sem eftir stendur að þróast í friði. Skapið rými fyrir palla, stéttar, berjarunna, tré og blóm eða bara gott svæði fyrir allskonar annað dót sem þarf sinn stað.

Ég er viss um að jarðvinnuverktakar hjálpa ykkur með glöðu geði gegn vægu gjaldi.

Hér fylgir með mynd af einum þeirra fjölmörgu fugla sem tekið hafa sér árlega bólfestu eftir að slætti var nánast hætt. 

028

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband