Fimmtudagur, 18. janúar 2007
Að drepa framtak og kæfa
Ég las frétt um fyrirhugaða endurskoðun laga um húsbyggingar og byggingareftirlit.
Gott er ef menn vilja gera kerfið skilvirkara, en ég óttast að tækifærið verði notað til að auka skatta og gjaldtöku sveitarfélagana af húsbyggingum.
Í dag er staðan orðin sú að einstaklingar treysta sér varla til að byggja, og búið er að fyrirtækjavæða byggingariðnaðinn með ömurlegri útkomu í verði, gæðum og útliti.
Flest öll hús eru að verða einsleitir kassar, í einsleitum sálarlausum hverfum fjöldaframleiðslunnar. Öll sköpun er nánast horfin og kröfur eru gerðar um að hús í hverfum séu einsleit og helst eins á litin af sveitarfélögunum.
Og oft rifjast upp fyrir mér orð hins erlenda gests, sem hvatti íslendinga til að skjóta alla Íslenska arkitekta sem fyrst, áður en þeir ynnu meira tjón á byggingarlistinni.
Byggingarreglugerðin virðist skrifuð af tæknimönnum fyrir tæknimenn, og með þeirra hagsmuni að leiðarljósi. Engin getur framkvæmt neitt án þess að ráða til starfa hóp tæknimanna gegn vægu gjaldi. Engin má byggja án þess að borga tæknimanni fyrir að hafa verkstjórn yfir iðnmeisturum og annast samskipti við byggingarfulltrúana. Það er furðulegt að byggingarfulltrúar sveitarfélaga geti ekki talað við iðnmeistara og venjulegt fólk, heldur verði að fá tæknimann sem túlk. Og lengi má svo telja áfram upp viskuna.
Trúa menn því virkilega að sá sem vill byggja yfir sig og fjölskyldu sýna, fari að fúska við verkið. Myndir þú senda barnið þitt í langferð á bremsulausum bíl eða láta það gista í byggingu sem væri ótraust.
Ofan á þessa forræðishyggju hefur svo verið gefið út veiðileyfi til handa sveitarfélögunum á húsbyggendur, og það hefur líka verið notað óspart með svo kölluðum útboðum á lóðum.
Þannig hafa sveitarfélög komist upp með það að nota lóðaskort til að skapa eftirspurn og ná svo gríðarlegum fjárhæðum til sín með útboðum lóða. Ef ég man rétt, þá geta sveitarfélög ekki innheimt hærri gjöld fyrir þjónustu, en kostnaðurinn við að veita hana kostar sannanlega, en með útboðs leik, þá er hægt að komast framhjá þessu, og það segir talsvert um stjórnsýsluna.
Svo kemur hinn yndislegi frjálsi fjármálageiri, og býður góð lán fyrir kaupendur bygginga til 30 eða 40 ára að vali.
Þetta er eflaust allt gott og blessað, en hvað ætla menn að gera þegar atvinna minnkar og skuldirnar vaxa fólki yfir höfuð, og sveitarfélögin eru búin að hirða framtíðartekjur íbúana.
Og hvernig stöndum við sem þjóð, þegar búið er að drepa allt frumkvæðið og sjálfsbjargar viðleitnina niður, með íþyngjandi reglubákni og hóflausri gjaldtöku.
Vill engin læra af mistökum Evrópu, eða er kannski best að gera bara sömu mistök og aðrir hafa gert, því þá er útkoman viss.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.