Sunnudagur, 4. febrúar 2007
Samfélagsmaurar Íslands.
Sendi Frjálslynda flokknum línu, og bað þá um að taka mig af félagsskrám, og hætta að vísa á mig sem tengilið á Fljótsdalshéraði.
Leiðist í flokkum sem breytast í einkahagsmunasamtök þingflokks. Best fyrir mig að vera utan flokka, gamlir hægri kratar eru hverfandi stofn.
Byrjaði ungur í Sambandi ungra Jafnaðarmanna og var Alþýðuflokksmaður af lífi og sál, var í stjórnum, nefndum og ráðum flokksins til að bæta heiminn og frelsa. Gekk seint að blása lífi í flokkinn svo að ég gekk ásamt mörgum öðrum, út af flokksþingi, og gerðist einn stofnanda Bandalag Jafnaðarmanna og frambjóðandi í Reykjaneskjördæmi fyrir flokkinn. Það var gefandi og skemmtilegur tími, en að kvöldi kosninga gekk ég út, vonsvikin með viðsnúning nýkjörinna og sjálfumglaðra þingmanna. Grímurnar voru að síga niður og eiginhagsmunirnir að taka yfir.
Hætti í flokkabröltinu og fór að sinna stéttarfélagsmálum og kjarabaráttu um tíma, og fór svo að standa ásamt öðrum, fyrir stofnun Íbúasamtaka, afþreyingar klúbba, ofl slíkra hluta. Hef alltaf verið hlynntur öflugri starfssemi félagasamtaka á öllum sviðum, svo fólk geti sameinast um áhugamál og eflt hvort annað.
Datt inn í Frjálslynda flokkinn sem frambjóðandi í N.A kjördæmi og svo í samstarf með Félagshyggju fólki á Fljótsdalshéraði, vegna bæjarstjórnarkosninga.
Var líka virkur hjá Rauða Krossi Íslands, sem sjálfboðaliði og stjórnarmaður.
Í gegn um þetta félagsmálabrölt mitt hef ég hitt mikið af góðu fólki, og líka eitthvað af hund leiðinlegum einstaklingum, sem eru bara að taka þátt í félagsmálum til að upphefja sjálfan sig, og er skít sama um allt og alla aðra, en sig, sitt, ásýnd og völd.
Kannski geri ég bara of miklar kröfur til fólks um fórnfýsi, og er líka of uppfullur að þjóðrembu. Ég er alinn upp við það, að tilgangur einstaklings, sé sá að byggja upp fyrir komandi kynslóð, og efla samfélagið á allan hátt, án þess að krefjast fyrir sinn hlut meira en sanngjarnt sé, í samanburði við aðra. Mín kynslóð var alinn upp sem samfélagsmaur Íslands.
Í dag eru flestir eingöngu að hugsa um sig og sýnar þarfir, og hugsun samfélagsmaursins er úrelt. En við ættum kannski að muna það að hugsun samfélagsmaursins flutti þessa þjóð í gegn um þorskastríð, eldgos og snjóflóð, sem liðsheild og eina stóra fjölskyldu þegar illa stóð á.
Mun þessi sjálfhverfa kynslóð dagsins í dag, vera tilbúin til að fórna eiginhagsmunum, þegar aftur reynir á, blundar samfélagsmaurinn meðal okkar eða hefur græðgin etið hann.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.