Föstudagur, 8. september 2006
Ríki óttans
Mikið afskaplega langar mörgum litlum sálum að koma upp ríki óttans hér á Íslandi.
Ég verð alltaf jafn hissa á að hlusta á Yfirlögregluþjón í Reykjavík lýsa vanþóknun sinni og undrun á, virðingarleysi borgarana gagnvart lögreglunni. Hann virðist ekki skilja að lögreglan er í þjónustu fólksins, en ekki varðhundur valdsins.
Þjóðin kýs sér menn á þing til að setja lög og lögreglan á að sjá um að þeim sé framfylgt og friður haldist.
Það er ekki hennar að vera í hermannaleik eða vera að ögra fólki til að fá tilefni til að efna til átaka.
Okkur vantar ekki meira af stráka hvolpum í lögregluna, okkur vantar eldri menn og konur með þroska, og okkur vantar mennina með reynsluna út á göturnar meðal fólksins.
Það má vel ráða skrifstofufólk til innistarfa og skýrsluskrifa, því er óþarfi að setja alvöru lögreglumenn og konur inn á skrifstofur, því þetta fólk vantar út.
Að sjá framkomu lögreglu við erlenda mótmælendur og unga skólakrakka er til skammar, menn öðlast ekki virðingu með valdsboði og hroka. Það eru til aðrar leiðir til að fást við eigin ótta og vanmeta kennd en slík framkoma.
Virðingu öðlast menn með því að sýna stillingu og fagmennsku í starfi, ekki að vera ávallt að klaga samborgarana og hreykja sjálfum sér að því hvað þeir stóðu sig vel, þó allt hafa farið í vaskinn í raun.
Víkingasveitir eru ávísun á meiri hörku í samskiptum á báða bóga, kannski hætta menn ekki fyrr en búið er að drepa einhvern og búa til heljar gjá milli fólksins og lögreglunar, slíkt væri mikil harmasaga fyrir þessa þjóð.
Eina leiðin til að ná árangri í baráttu gegn erlendum glæpahringjum og fíkniefnasölum er þessi samstaða og þessi frændsemi og vinátta sem til staðar er hjá Íslendingum, ef farið er að efla vinsamleg samskipti lögreglu og fólks getum við náð samstarfi sem væri einstakt á heimsvísu og þrengt að innflutningi fíkniefna.
Við þurfum að henda þessu smákóngakerfi embætta, og sameina bæði lögreglu og tollgæslu í eitt umdæmi á landsvísu. með þessu og öflugu samstarfi við almenning mætti nánast loka þessu litla landi.
Á Íslandi hafa menn öðlast virðingu með störfum sýnum og framkomu en ekki með titlum og prjáli.
Auðmýkt er undanfari virðingar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.