Fimmtudagur, 17. janúar 2008
Góð blaðagrein
Í Fréttablaðinu í dag, 17 Janúar 2008 er virkilega góð grein eftir Þorvald Gylfason.
Ég tók mér það leyfi að birta afrit hennar hér og lýsi jafnframt furðu minni á "Réttarríkinu" Íslandi.
Áfellisdómur að utan
Höfuðmarkmið réttarríkis er að halda uppi röð og reglu, verja rétt gegn röngu, lítilmagnann gegn stórlöxunum. Lögum og rétti er ætlað að vernda réttláta gegn ranglátum. Dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna heitir réttlætismálaráðuneyti. Það er viðeigandi nafngift í óskoruðu réttarríki, þar sem allir eru jafnir fyrir lögum. En lög og réttur snúast ekki eingöngu um réttlæti, heldur einnig um hagsmuni, því að menn getur greint á um réttlæti. Þessar átakalínur eru skýrar í lifandi réttarríkjum eins og Bandaríkjunum, en þær eru sljórri á Íslandi, þar sem löggjöfin, túlkun laga af hálfu dómstóla, gengnir dómar og lagaframkvæmd hafa löngum borið sterkan keim af ríkjandi stjórnmálahagsmunum, svo sem marka má til dæmis af skipan dómara fyrr og síðar. Margir lögfræðingar gera sér grein fyrir vandanum. Lögmannafélagið vill herða á hæfniskröfum til dómara til að girða fyrir geðþóttafullar mannaráðningar í dómskerfinu. Í nálægum löndum eru gerðar strangar hæfniskröfur til dómara. Nýju dómstólalögin frá 1998 ganga ekki nógu langt í þessa átt. Eins og sakir standa virðast meiri kröfur gerðar til héraðsdómara en hæstaréttardómara, þó með einni nýrri og nánast átakanlegri undantekningu.
Hæstiréttur ógilti kvótalögin 1998
Ísland hefur einnig þá sérstöðu meðal réttarríkja, að handhafar framkvæmdavaldsins hafa ekki vílað fyrir sér að fordæma úrskurði Hæstaréttar. Árið 1998 felldi Hæstiréttur dóm þess efnis, að synjun sjávarútvegsráðuneytisins á umsókn Valdimars Jóhannessonar um leyfi til fiskveiða bryti gegn jafnréttisákvæði í 65. grein stjórnarskrárinnar, en þar segir, að allir skuli vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti. Formenn beggja þáverandi ríkisstjórnarflokka brugðust ókvæða við dóminum. Þegar 105 af 150 prófessorum í Háskóla Íslands þótti rétt að senda frá sér sameiginlega yfirlýsingu til varnar Hæstarétti, treysti enginn lagaprófessor sér til að skrifa undir. Einn þeirra sendi mér bréflega lýsingu á refsingunum, sem hann taldi sig mundu kalla yfir sig og fjölskyldu sína, ef hann fylgdi sannfæringu sinni.
Hæstiréttur snýr við blaðinu 2000
Skömmu síðar komu fiskveiðistjórnarlögin aftur til kasta Hæstaréttar. Þá snerist málið um menn, sem höfðu túlkað fyrri dóminn svo, að þeim hlyti að vera heimilt að róa án kvóta. Fimm dómarar af sjö sáu nú enga mismunun fólgna í fiskveiðistjórnarlögunum. Tveir dómarar af sjö staðfestu þó fyrri dóm, þar sem fiskveiðilögin voru talin leiða af sér mismunun, sem bryti gegn jafnræðisreglu 65. greinar stjórnarskrárinnar og atvinnufrelsisreglu 75. greinar, en þar segir: "Öllum er frjálst að stunda þá atvinnu sem þeir kjósa. Þessu frelsi má þó setja skorður með lögum, enda krefjist almannahagsmunir þess." Saman fela 65. grein og 75. grein í sér, að hvers kyns skorður við atvinnufrelsi í almannaþágu, þar á meðal skert fiskveiðiréttindi, verða að samrýmast jafnræði og mannréttindum. Kúvending Hæstaréttar í kvótamálinu 2000 leysti Alþingi að sinni undan þeirri kvöð að breyta fiskveiðilögunum til samræmis við ákvæði stjórnarskrárinnar um jafnræði og atvinnufrelsi. Sinnaskiptin voru ekki til þess fallin að efla trú fólksins í landinu á hlutleysi og sjálfstæði Hæstaréttar. Mikill hluti þjóðarinnar vantreystir dómskerfinu svo sem vonlegt er.
Úrskurður Mannréttindanefndar SÞ 2007
Nú hefur Mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna í reyndinni ógilt síðari dóm Hæstaréttar í kvótamálinu með því að taka undir það jafnræðissjónarmið, sem við veiðigjaldsmenn höfum frá öndverðu haldið fram og Hæstiréttur staðfesti í fyrri dómi sínum 1998. Nefndin reisir úrskurð sinn á, að ókeypis úthlutun aflakvóta til þeirra, sem stunduðu veiðar 1980-83, brjóti gegn 26. grein Mannréttindasáttmála SÞ, sem er samhljóða 65. grein stjórnarskrár okkar. Úthlutunarregla laganna fullnægir ekki þeirri kröfu, að allir skuli sitja við sama borð, vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til efnahags. Alþingi þarf að bregðast við úrskurði nefndarinnar innan 180 daga. Þingið hlýtur að vilja virða álit Mannréttindanefndarinnar og bæta úr skák, því að ella verður Ísland úthrópað á alþjóðavettvangi, eins og Ragnar Aðalsteinsson hæstaréttarlögmaður hefur bent á. Útlagar viljum við ekki vera. Alþingismenn ættu allra sízt að reyna að skýla sér á bak við þá skoðun, að útvegsmenn séu stungnir af með sameign þjóðarinnar. Alþingi setti lögin, sem brjóta gegn Mannréttindasáttmála SÞ og einnig gegn stjórnarskránni, og Hæstiréttur dansaði með.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:38 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.