Fyrsti dagur í framboði

Fyrsti dagur í framboði

Vaknaði um kl 05:00 austur á Eiðum Fljótsdalshéraði og tók saman það sem flytja skal með suður í þessari ferð, var samt ekki lagður af stað fyrr en um 08:00 frá Egilsstöðum því það er alltaf eitthvað sem þarf að athuga eins og loftjöfnun í hjólbörðum, fylla af eldsneyti og allur sá pakki.

Fór Breiðdalsheiðina suður og ók fram hjá einum 7 litlum hreindýrahjörðum eða hópum á leiðinni milli Breiðdals og Jökulsárlóns, auk þúsunda gæsa, svana og annarra fuglategunda sem streyma til landsins núna eins og á hverju vori, veðrið var gott og náttúran kallaði vor sem er greinilega komið vel af stað.

Á svona stundum er oft erfitt að stoppa ekki bílinn út í vegkant og fara í góða göngu um fjöruna eða til fjalla.

Ók í spreng að Kirkjubæjarklaustri til að fylla á eldsneytistank bílsins og bæta á vömbina smá óhollustu, ók svo sem leið liggur til Reykjavíkur og kom mér fyrir á Þrastargötu sem hefur verið mitt annað heimili í vetur vegna náms sem drukknaði í vinnu.

Það var liðið á sjötta tíman er ég var búin að koma mér fyrir og settist við tölvuna til að svara póst og senda upplýsingar út um þennan óþekkta einstakling sem er talsmaður Lýðræðishreyfingarinnar í suðurkjördæmi XP.IS

Ræddi við Guðrúnu Maríu um að koma við upp á skrifstofu en tíminn leið og ég dreif mig austur á Hótel Selfoss til að kynna okkur á bændafundi sem var vegna dags landbúnaðar, um 100 manns mættir og greinilega þungt yfir bændum sem öðrum í þessu samfélagi okkar.

Við vorum mætt sjö frá jafn mörgum framboðum og kynntum okkur og málefnin á sex mínútna opnun að lokinni framsögu Bændasamtaka, það kom mér á óvart hvað Árni Johnsen elti mig í málflutningi sínum en hann var næstur á eftir mér og gleðilegt að heyra hvað líkar skoðanir við höfðum á ýmsum sviðum þó það megi nú oftast segja um alla aðra flokka líka, svo hófust fyrirspurnir úr sal.

Það var greinilegt að ég er ryðgaður í þessu enda langt síðan ég var á svona fundi síðast og vottaði fyrir streitu hjá mér sem þýðir hærri rödd og hraðara tal, en það kom mér sjálfum þó nokkuð á óvart.

Þetta var svona áfalla meðferð fyrir fundargesti því boðskapur minn var að galopna markaði með vörur bænda og hvetja þá til að framleiða eftir mætti til að keppa á opnum markaði án hindrana á framleiðslugetu að öðru leiti en geta sannað fóðrunargetu búfjár og beitarþol lands, ég benti á að það væri ímyndunaraflið eitt sem hefti það hvað hægt væri að hefja framleiðslu á og benti á hina ýmsu heimaframleiðslu og tækifæri sem opnast ef bændur fá frið til að sýna getu góðs bónda sem starfar án hafta og forsjárhyggju hins opinbera eða undir klafa ESB regluverksins sem drepur allt framtak.

Þá kynnti ég hugmyndina um að stofna B-sjóð samhliða íbúðarlánasjóð til að gefa þeim sem þurfa endurskoðun fjármögnunar á íbúðarhúsnæði og viljann til að útfæra þetta líka yfir á atvinnulífið.

Það kom ekki rétt út úr mér því ég gleymdi líklega endinum um að fólkið fengi eigur sínar aftur, eftir á að hyggja hefur þetta líklega hljómað eins og ég segði fólki að fara bara í gjaldþrot, vont að fara þreyttur á svona fund.

Hugmyndin gengur út á að B-sjóður hjálpi í gegn um sársaukafullt ferli fyrir alla, íbúðareigandinn hefði samband við sjóðinn sem hefði vald til að beita greiðslustöðvun og vald sem skiptastjóri í búi, sjóðurinn tæki yfir eign á metnu verðgildi óháðs matsaðila og innkallaði allar kröfur á fasteignina, sjóðurinn héldi uppboð á meðal kröfuhafa til að finna hvaða upphæð væri eðlilegt að hvíldi á eign og svo yrðu þeir kröfuhafar sem ekki væru hæstbjóðendur að afskrifa sýnar kröfur, hæstbjóðandi í eign fengi 1 veðrétt í eigninni en íbúðareigandinn fengi forkaupsrétt og kaupleigusamning til 10 ára.

Þannig væri búið að endurfjármagna eignina og afskrifa fyrirsjáanlega tapaðar kröfur veðhafa, í stað þess að drekkja fólki með skuldum sem engin ræður við, að sjálfsögðu yrði að gera þetta í samvinnu við ráðgjafamiðstöð heimilanna til að tryggja að fólk réði við íbúðarkaupin.

Fundurinn var skemmtilegur þó hanna stæði frá 20:30 til 24:00 og þreyta farin að segja til sín, þegar ég ákvað að fara í framboð frekar en röfla inn í eldhúsi eins og siður hefur verið á meðal margra, lofaði ég sjálfum mér að vera hreinskilin og segja það sem ég vildi gera og hugsaði án tillits til vinsælda eða atkvæða, mér leiðist fólk sem talar til að þóknast og gerir svo annað er á reynir, þó mig langi á þing til að geta lagt fram breytingar á lögum er fórn sannleika of hátt gjald að mínu mati.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband