Fimmtudagur, 5. apríl 2007
Sorglegt tilfelli
![]() |
Kærastinn var í raun þrítug kona |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Mánudagur, 2. apríl 2007
Þetta verður að stoppa
Erum við ekki ábyrg þjóð
Þessum harmleik, sem við hjálpuðum til við að hefja í Írak verður að linna, ég legg því til að við leggjum fram ákærur vegna þeirra stríðsglæpa sem framdir eru og hafa verið í Írak.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 5.4.2007 kl. 22:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Laugardagur, 31. mars 2007
Vonandi
Vonandi er þessi túlkun Margrétar rétt, en syngur ekki hver fugl með sínu nefi.
Það syngja allir frambjóðendur fallega í atkvæðahug , eins og fuglar að vori, en það er þetta smáatriði með að muna og standa við orð sín, sem virðist vefjast fyrir þeim flestum
.
Vonandi kemst Margrét inn og getur sýnt þá hver hún er þegar á reynir.
Gott gengi Íslandshreyfing.
![]() |
Margrét: Stjórnmál 21. aldar snúast um mannauð, hugvit og nýsköpun |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Föstudagur, 23. mars 2007
Megi Hérað vakna og lifa
Stundum hef ég verulegar áhyggjur af svefninum langa, sem virðist herja á Fljótsdalshérað.
Vonandi er það samt þannig að ég sé bara illa upplýstur um það sem er að bresta á?
Það bólar nefnilega ekkert á nýju tjaldsvæði við Egilsstaði, og þá alvöru tjaldsvæði.
Það vantar stórt og rúmgott svæði, þar sem tjöld, húsbílar, tjaldvagnar og rútur geta komið, og hver fengið svæði sem hentar mismunandi þörfum.
Ég er að tala um þvottaplan, losunartanka fyrir húsbíla, vatns og raftengla fyrir húsbíla, hjólhýsi, ofl slíkt sem gerir svæðið að fyrsta flokks dvalarstað.
Það þarf smáhýsi, útigrill og þvottar vélar, þurrkara og baðaðstöðu.
Líka rúmgott þjónustuhús fyrir gesti, allt árið um kring.
Svona aðstaða er spurningin um það hvort við á Héraði lifum, eftir virkjanaveisluna miklu.
Ættum við kannski að hafa vit fyrir þeim værukæru, og stofna félag um svona framkvæmd.
Biðin gæti orðið ansi löng eftir frumkvæðinu.
Þeir í bæjarstjórn eru að byggja miðbæjargötu, sem er gott.
En er ekki gáfulegra að lífga við það sem gefur tekjurnar fyrst, frekar en gleyma sér við stórveldisdrauma.
Strikið mikla í miðbænum getur beðið í ár eða svo, en tapaður viðskiptavinur er ekki aftur komin.
Endilega að forgangsraða hlutunum, það væri best fyrir alla til framtíðar.
Þriðjudagur, 13. mars 2007
Töpuð þekking og fjármunir
Stjórnmál og samfélag | Breytt 9.4.2007 kl. 09:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Sunnudagur, 4. mars 2007
Sviðnar rætur
Í gegn um tíðina höfum við lifað og hrærst með náttúruöflunum, og velferð okkar hefur byggst á að afla fiskjar og eða ná heyinu í hlöðu, til að lifa veturinn af og geta selt vörur úr landi.
Nú getum við lifað af vetrar hörkur og rigningartíð, án mikillar fyrirhafnar og selt iðnvarning og hugvit úr landi, ásamt hefðbundnum vörum.
Við viljum samt meira og meira, til að geta stækkað flatskjáinn, farið oftar á sólarströnd og átta allar nýjustu græjurnar og bílana.
Spurningin sem við þurfum að spyrja okkur um og leita svaravið er:
Hvenær eigum við nóg af dóti og hvað erum við tilbúin að fórna miklu fyrir dótið okkar.
Að lífinu loknu fer ekkert okkar með allt dótið með sér, og við erum öll grafin í sömu moldu, hlið við hlið.
Erum við tilbúin til að virkja öll fallvötn og stilla upp gufuaflsvirkjunum á öllum orku svæðum, viljum við fylla landið af stóriðjuverum og breita landinu í vinnubúðir láglaunafólks.
Viljum við breyta samfélaginu í litla útgáfu af Ameríku, gera ríka ríkari og fátæka fátækari.
Viljum við fara svona hratt, liggur lífið við?
Er græðgin góður HÚSBÓNDI, og kærleikurinn bara bull?
Spyr sá sem ekki veit, eða hvað?
Stjórnmál og samfélag | Breytt 5.3.2007 kl. 20:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 4. febrúar 2007
Samfélagsmaurar Íslands.
Sendi Frjálslynda flokknum línu, og bað þá um að taka mig af félagsskrám, og hætta að vísa á mig sem tengilið á Fljótsdalshéraði.
Leiðist í flokkum sem breytast í einkahagsmunasamtök þingflokks. Best fyrir mig að vera utan flokka, gamlir hægri kratar eru hverfandi stofn.
Byrjaði ungur í Sambandi ungra Jafnaðarmanna og var Alþýðuflokksmaður af lífi og sál, var í stjórnum, nefndum og ráðum flokksins til að bæta heiminn og frelsa. Gekk seint að blása lífi í flokkinn svo að ég gekk ásamt mörgum öðrum, út af flokksþingi, og gerðist einn stofnanda Bandalag Jafnaðarmanna og frambjóðandi í Reykjaneskjördæmi fyrir flokkinn. Það var gefandi og skemmtilegur tími, en að kvöldi kosninga gekk ég út, vonsvikin með viðsnúning nýkjörinna og sjálfumglaðra þingmanna. Grímurnar voru að síga niður og eiginhagsmunirnir að taka yfir.
Hætti í flokkabröltinu og fór að sinna stéttarfélagsmálum og kjarabaráttu um tíma, og fór svo að standa ásamt öðrum, fyrir stofnun Íbúasamtaka, afþreyingar klúbba, ofl slíkra hluta. Hef alltaf verið hlynntur öflugri starfssemi félagasamtaka á öllum sviðum, svo fólk geti sameinast um áhugamál og eflt hvort annað.
Datt inn í Frjálslynda flokkinn sem frambjóðandi í N.A kjördæmi og svo í samstarf með Félagshyggju fólki á Fljótsdalshéraði, vegna bæjarstjórnarkosninga.
Var líka virkur hjá Rauða Krossi Íslands, sem sjálfboðaliði og stjórnarmaður.
Í gegn um þetta félagsmálabrölt mitt hef ég hitt mikið af góðu fólki, og líka eitthvað af hund leiðinlegum einstaklingum, sem eru bara að taka þátt í félagsmálum til að upphefja sjálfan sig, og er skít sama um allt og alla aðra, en sig, sitt, ásýnd og völd.
Kannski geri ég bara of miklar kröfur til fólks um fórnfýsi, og er líka of uppfullur að þjóðrembu. Ég er alinn upp við það, að tilgangur einstaklings, sé sá að byggja upp fyrir komandi kynslóð, og efla samfélagið á allan hátt, án þess að krefjast fyrir sinn hlut meira en sanngjarnt sé, í samanburði við aðra. Mín kynslóð var alinn upp sem samfélagsmaur Íslands.
Í dag eru flestir eingöngu að hugsa um sig og sýnar þarfir, og hugsun samfélagsmaursins er úrelt. En við ættum kannski að muna það að hugsun samfélagsmaursins flutti þessa þjóð í gegn um þorskastríð, eldgos og snjóflóð, sem liðsheild og eina stóra fjölskyldu þegar illa stóð á.
Mun þessi sjálfhverfa kynslóð dagsins í dag, vera tilbúin til að fórna eiginhagsmunum, þegar aftur reynir á, blundar samfélagsmaurinn meðal okkar eða hefur græðgin etið hann.
Fimmtudagur, 18. janúar 2007
Að drepa framtak og kæfa
Ég las frétt um fyrirhugaða endurskoðun laga um húsbyggingar og byggingareftirlit.
Gott er ef menn vilja gera kerfið skilvirkara, en ég óttast að tækifærið verði notað til að auka skatta og gjaldtöku sveitarfélagana af húsbyggingum.
Í dag er staðan orðin sú að einstaklingar treysta sér varla til að byggja, og búið er að fyrirtækjavæða byggingariðnaðinn með ömurlegri útkomu í verði, gæðum og útliti.
Flest öll hús eru að verða einsleitir kassar, í einsleitum sálarlausum hverfum fjöldaframleiðslunnar. Öll sköpun er nánast horfin og kröfur eru gerðar um að hús í hverfum séu einsleit og helst eins á litin af sveitarfélögunum.
Og oft rifjast upp fyrir mér orð hins erlenda gests, sem hvatti íslendinga til að skjóta alla Íslenska arkitekta sem fyrst, áður en þeir ynnu meira tjón á byggingarlistinni.
Byggingarreglugerðin virðist skrifuð af tæknimönnum fyrir tæknimenn, og með þeirra hagsmuni að leiðarljósi. Engin getur framkvæmt neitt án þess að ráða til starfa hóp tæknimanna gegn vægu gjaldi. Engin má byggja án þess að borga tæknimanni fyrir að hafa verkstjórn yfir iðnmeisturum og annast samskipti við byggingarfulltrúana. Það er furðulegt að byggingarfulltrúar sveitarfélaga geti ekki talað við iðnmeistara og venjulegt fólk, heldur verði að fá tæknimann sem túlk. Og lengi má svo telja áfram upp viskuna.
Trúa menn því virkilega að sá sem vill byggja yfir sig og fjölskyldu sýna, fari að fúska við verkið. Myndir þú senda barnið þitt í langferð á bremsulausum bíl eða láta það gista í byggingu sem væri ótraust.
Ofan á þessa forræðishyggju hefur svo verið gefið út veiðileyfi til handa sveitarfélögunum á húsbyggendur, og það hefur líka verið notað óspart með svo kölluðum útboðum á lóðum.
Þannig hafa sveitarfélög komist upp með það að nota lóðaskort til að skapa eftirspurn og ná svo gríðarlegum fjárhæðum til sín með útboðum lóða. Ef ég man rétt, þá geta sveitarfélög ekki innheimt hærri gjöld fyrir þjónustu, en kostnaðurinn við að veita hana kostar sannanlega, en með útboðs leik, þá er hægt að komast framhjá þessu, og það segir talsvert um stjórnsýsluna.
Svo kemur hinn yndislegi frjálsi fjármálageiri, og býður góð lán fyrir kaupendur bygginga til 30 eða 40 ára að vali.
Þetta er eflaust allt gott og blessað, en hvað ætla menn að gera þegar atvinna minnkar og skuldirnar vaxa fólki yfir höfuð, og sveitarfélögin eru búin að hirða framtíðartekjur íbúana.
Og hvernig stöndum við sem þjóð, þegar búið er að drepa allt frumkvæðið og sjálfsbjargar viðleitnina niður, með íþyngjandi reglubákni og hóflausri gjaldtöku.
Vill engin læra af mistökum Evrópu, eða er kannski best að gera bara sömu mistök og aðrir hafa gert, því þá er útkoman viss.
Sunnudagur, 17. desember 2006
Ábending til fréttastofu R-Ú-V
Þann15-12-"06 var ungur fréttamaður hjá RÚV með frétt í síðdegisútvarpinu um slysatíðni á Kárahnjúkasvæðinu, "fréttin" var svo étin eftir í öllum fréttatímum án gagnrýni.
Ég hef sjaldan eða aldrei heyrt jafn óvandaðan fréttaflutning á ævinni, og var þessi svo kallaða frétt frekar áróður og rangfærslur, en frétt.
Fréttamaðurinn tók viðtal við yfirlæknir á Egilsstöðum um slysatíðni á Kárahnjúkum í stað þess að tala við læknirinn, sem er yfirmaður heilsugæslunnar á Kárahnjúkum.
Yfirlæknirinn á heilsugæslunni Egilsstöðum, svaraði eftir bestu getu og vitund, en er greinilega ekki staðkunnugur eins og læknar sem starfa á Kárahnjúkum, og hafa verið þarna frá upphafi.
Fréttamaðurinn reyndi að bera saman slysatíðni við virkjunarframkvæmdir á hálendinu, annarsvegar í 600 metra hæð yfir sjávarmáli að vetri til, og hins vegar saman við byggingu stálgrindahúsa ALCOA, í fjörunni við Reyðarfjörð. Hann gæti alveg eins borið saman fisk og hreindýr, því svo ólík eru verkefnin. Annarsvegar er um að ræða venjuleg stálgrindarhús eins og við höfum byggt í Straumsvík, Hvalfirði, ofl stöðum, án meiri slysatíðni en hjá Becktel, þrátt fyrir rétta slysaskráningu. Og hinsvegar einstaka framkvæmd á hálendi Íslands.
Blaðamaðurinn kórónar svo skilningsleysið á því sem hann á að vera að fjalla um, með því að taka þátt í þeirri sögufölsun og þeim áróðri sem slysaskráningin hjá ALCOA / BECKTEL er.
Á álverslóðinni eru eingöngu gefnar upp tölur um fjarveruslys (sem er dagur frá vinnu vegna slyss) en á Kárahnjúkum er allt skráð sem slys, bæði ef stigið er á nagla, klemmdur fingur sem og að sjálfsögðu fjarveruslys. ALCOA / BECKTEL birtir því ekki tölur um minni slys og starfsmenn á svæðinu hafa margoft fullyrt að þeim sé fyrirskipað að mæta meiddir til léttari starfa og eða bara vera á staðnum, svo að ekki verði til skráning um fjarveruslys.
Sé þessi fullyrðing, sem ég hef heyrt frá mörgum starfsmönnum svæðisins, rétt, er málið graf alvarlegt. Starfsmenn eru þá líklega í stórum stíl, að fyrirgera rétti sýnum til skaðabóta seinna meir, ef slys eru ekki skráð rétt. Því miður eru þessar fullyrðingar starfsmananna ekki kannaðar af alvöru blaðamönnum.
Á Kárahnjúkum, sjást ekki starfsmenn vinnueftirlits nema endrum og eins, og þá eingöngu til skýrslugerða eftir stórslys, en að sjálfsögðu bregðast þeir ekki þegar þeir eiga að mæta til gjaldtöku við vinnuvélapróf. Lögreglan sést heldur ekki nema við sömu tilefni, en eru snöggir til að fylgja sprengiefnaflutningum og öðru því sem bíður upp á gjaldtöku. Ég þekki tilfelli þar sem drukknir starfsmenn óku um virkjanasvæðið og líka þar sem erlendir starfsmenn óku út af Kárahnjúkaveginum sauðdrukknir, enda engin hætta á löggæslu upp á Kárahnjúk.
Maður spurði sjálfan sig stundum að því, hvort eingöngu væru ráðnir rukkarar í þessi opinberu störf, og hvort þessum stofnunum væri bannað að koma á staðin nema þeim væri boðið.
Allir alvöru blaðamenn, vinna sína heimavinnu áður en þeir rjúka með fréttir í útsendingu, og ritstjórar eru ráðnir til að fylgjast með gæðum vinnu.
RÚV vill halda tiltrú og trausti, en svona vinnubrögð gera einmitt hið gagnstæða, vilji stofnunin láta taka sig alvarlega verður að taka þetta mál til umfjöllunar og vanda til verka, tala við hreinskiptna heiðarlega starfsmenn, og bera saman sambærilega hluti. Spyrja þarf hver sé að skrá slys, hvernig er slys skilgreint, hjá hverjum starfar skráningaraðilinn, er viðleitni til að draga úr skráningu og eða hvatning til staðar, hvað hafa margir slasast við byggingu stálgrindarhúsa á báðum stöðum á unna vinnustund, hvaða Íslensku stofnanir og eða aðilar sinna eftirliti á stöðunum og hver er tíðni heimsókna frá þeim, er krafist úttekta byggingarfulltrúa á verkum, er krafist úttekta vinnueftirlits, er veitt undanþága frá lögum og reglugerðum um eftirlit vinnueftirlitsins, og ef svo er ekki þá spyr maður sig hvers vegna ekki er tekið á þeim sem ekki hlíta lögum og reglum, bæði verktökum sem opinberum eftirlitaðilum, ofl ,ofl.
Í mínum huga eru svona vinnubrögð eins og voru viðhöfð við þessa svokölluðu frétt, ekkert nema fúsk og áróður blaðafulltrúa, en því miður virðast Íslenskir blaðamenn hafa gengið í hópum, til starfa sem væntinga og ímynda sölumenn, hjá hinum ýmsu sveitarfélögum og fyrirtækjum. Hinir sem eftir sitja virðast ekki geta slitið tengslin við gömlu starfsfélagana, og gleypa nánast allt hrátt sem að þeim er rétt.
En það ekki einmitt ástæðan fyrir ásókn fyrirtækjanna í fyrrum blaðamenn sem fréttafulltrúa.
Annars hefur það ávalt vakið athygli mína, hvað fréttaflutningur frá svæðisútvarpi austurlands er alltaf jákvæður, meira líkur ímynda sköpun en fréttaflutningi.
Ég starfaði frá 2004 til 2006 við framkvæmdareftirlit á Kárahnjúkum og tel mig því vita eitthvað um verkefnið, og mæli eindregið með því að farið verði að bera saman sambærilega hluti, en ekki endalaust að bera á borð ábyrgðarlausan áróður og þvælu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 8. september 2006
Ríki óttans
Mikið afskaplega langar mörgum litlum sálum að koma upp ríki óttans hér á Íslandi.
Ég verð alltaf jafn hissa á að hlusta á Yfirlögregluþjón í Reykjavík lýsa vanþóknun sinni og undrun á, virðingarleysi borgarana gagnvart lögreglunni. Hann virðist ekki skilja að lögreglan er í þjónustu fólksins, en ekki varðhundur valdsins.
Þjóðin kýs sér menn á þing til að setja lög og lögreglan á að sjá um að þeim sé framfylgt og friður haldist.
Það er ekki hennar að vera í hermannaleik eða vera að ögra fólki til að fá tilefni til að efna til átaka.
Okkur vantar ekki meira af stráka hvolpum í lögregluna, okkur vantar eldri menn og konur með þroska, og okkur vantar mennina með reynsluna út á göturnar meðal fólksins.
Það má vel ráða skrifstofufólk til innistarfa og skýrsluskrifa, því er óþarfi að setja alvöru lögreglumenn og konur inn á skrifstofur, því þetta fólk vantar út.
Að sjá framkomu lögreglu við erlenda mótmælendur og unga skólakrakka er til skammar, menn öðlast ekki virðingu með valdsboði og hroka. Það eru til aðrar leiðir til að fást við eigin ótta og vanmeta kennd en slík framkoma.
Virðingu öðlast menn með því að sýna stillingu og fagmennsku í starfi, ekki að vera ávallt að klaga samborgarana og hreykja sjálfum sér að því hvað þeir stóðu sig vel, þó allt hafa farið í vaskinn í raun.
Víkingasveitir eru ávísun á meiri hörku í samskiptum á báða bóga, kannski hætta menn ekki fyrr en búið er að drepa einhvern og búa til heljar gjá milli fólksins og lögreglunar, slíkt væri mikil harmasaga fyrir þessa þjóð.
Eina leiðin til að ná árangri í baráttu gegn erlendum glæpahringjum og fíkniefnasölum er þessi samstaða og þessi frændsemi og vinátta sem til staðar er hjá Íslendingum, ef farið er að efla vinsamleg samskipti lögreglu og fólks getum við náð samstarfi sem væri einstakt á heimsvísu og þrengt að innflutningi fíkniefna.
Við þurfum að henda þessu smákóngakerfi embætta, og sameina bæði lögreglu og tollgæslu í eitt umdæmi á landsvísu. með þessu og öflugu samstarfi við almenning mætti nánast loka þessu litla landi.
Á Íslandi hafa menn öðlast virðingu með störfum sýnum og framkomu en ekki með titlum og prjáli.
Auðmýkt er undanfari virðingar
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)