Þriðjudagur, 26. janúar 2010
Sameinum Austfirði
Austurbær er ekkert slæmt bæjarheiti fyrir sameinuð sveitarfélög á austfjörðum, við værum þá austurbærinn á Íslandi með íbúafjölda upp á 10.457 sálir og gætum notið hagkvæmni stærðarinnar í rekstri og skipulagt okkur með hagsmuni heildarinnar í huga í stað þess að vera í sandkassaleik sérhagsmuna endalaust öllum til tjóns í raun.
Í dag eru rekin 8 sveitarfélög á svæðinu með tilheyrandi sóun á peningum í margföld nefndarlaun og kostnað við að margvinna sama hlutinn vegna óheyrilegs fjölda sveitarfélaga, sem þurfa öll að gera sömu hlutina vegna lagakvaða.
Þessi 8 sveitarfélög eru, raðað eftir íbúafjölda í dag:
Fjarðabyggð 4.691 sálir.
Fljótsdalshérað 3.501sálir.
Seyðisfjörður 706 sálir.
Vopnafjarðarhreppur 676 sálir.
Djúpavogshreppur 444 sálir.
Breiðdalshreppur 208 sálir.
Borgarfjarðarhreppur 133 sálir.
Fljótsdalshreppur 98 sálir.
Þetta er ekki fyrir mér mjög flókið mál þó auðvelt sé að flækja það, ef 8 íbúðarhús eru við sömu götuna er betra fyrir íbúana að sameinast um eitt vatnsból og leiðslur, frekar en að reka 8 vatnsból og 8 vatnsveitustjóra.
Það tapar enginn á sameiningu nema þeir sem hagnast á sundurlindi og hafa hag af margskiptum rekstri, þetta að reka sveitarfélag er bara eins og hver annar rekstur á fyrirtæki.
Vel rekið sveitarfélag er með nánast engan sýnilegan rekstur annan en leigða fundaraðstöðu því nánast alla starfsemi sveitarfélaga er hægt að fela fyrirtækjum sem eru í rekstri nú þegar með þjónustusamningum, það er skilda sveitarfélaga að nýta hverja krónu íbúunum til hagsældar og lágmarka rekstrarkostnað svo ekki þurfi endalaust að hækka álögur á íbúana sem fæstir hafa af digrum sjóðum að taka.
Það er fleira sem sameinar okkur en sundrar og því er það okkar íbúana að krefjast sameiningar, við eigum ekki að láta smákónga sem óttast um stöður sýnar hindra okkur til góðra verka og munum að ber er hver að baki nema bræður/systur eigi.
Nú eru frambjóðendur farnir að brosa, heilsa og hlusta aftur á væntanlega kjósendur þannig að nú er tilvalið fyrir alla þá sem vilja sameiningu að ýta við frambjóðendum og segið þeim endilega hvað þið viljið.
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Bloggar, Fjármál, Samgöngur | Breytt s.d. kl. 09:37 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.