Mánudagur, 31. maí 2021
Menntakerfi fyrir framtíðina
Framtíð okkar byggist að mestu á því hvernig menntakerfi við byggjum upp og fyrir hverja.
Í dag virðist kerfið að mestu miðast við þarfir kennara og stjórnenda í kerfinu, stórar söfnunarbyggingar sem minna á réttir bænda með dilkum til að draga nemendur í.
Kennslan er að mestu fólgin í að þjálfa huga nemanda svo þeir standist próf í minnisgetu og fái gegn góðu minni, vottun um að hafa munað tiltekna hluti í völdum bókum fram að prófi.
Þetta er hinn hefðbundna menntun sem dugði í fortíðinni og kennsluiðnaðurinn vill viðhalda.
Tilgangur menntunar virðist vera sá að þjálfa starfsmenn fyrir atvinnulífið og hið opinbera, einnig er kennsluiðnaðurinn orðin það þurftafrekur að verið er að selja unga fólkinu menntun sem lítil sem engin þörf verður fyrir til að halda iðnaðinum tekjulega uppi.
Afraksturinn er töluvert magn af yfirskuldsettu ungu fólki sem sekkur svo enn dýpra í skuldafenið þegar fjárfest er í húsnæði, bifreið o.f.l sem talið er nauðsyn til að nálgast hamingjuna.
Kennsla í mannlegum samskiptum og hugarflugi, þátttaka í skapandi hópstarfi og samvinna þvert á fög sem menningarheima, efling tilfinningagreindar. Þetta eru kannski gagnlegri kennslugreinar en hefðbundin fög sem vélstýringar eru að yfirtaka og gera mun betur en við.
Við erum að berjast við allskonar vandamál í okkur sjálfum frá unga aldri og ættum kannski að fara að snúa okkur að kjarnanum í manneskjunni, sjálfinu.
Fólk er að flýja sjálft sig frá unga aldri og fellur margt í gryfju fíknar að einhverju tagi þar sem mannslíkaminn vinnur oft gegn okkur og bætir við hugarvandann með efnabreytingum sem gera fólk enn háðara flóttaefninu hvort sem það er áfengi eða önnur fíkniefni.
Við ættum að fara að einbeita okkur að uppbyggingu komandi kynslóða með því að hjálpa þeim og styðja í gegn um lífið frá unga aldri í stað þess að standa í innrætingu út frá rétttrúnaði.
Banna þarf alla trúarbragðainnrætingu fram yfir a.m.k 16 ára aldur til að verja viðkvæma huga fyrir misnotkun, tryggja þarf að börnum sé kennt að starfa saman, virða hvort annað og hjálpast að, banna alla mismunun og aðgreiningu út frá kyni eða öðrum þáttum sem vinna gegn samkennd og samvinnu.
Við þurfum að styðja og styrkja börnin svo upp vaxi heilbrigð kynslóð sem fær góðan stuðning til að takast á við komandi tíma með opnum huga og heilbrigðri samkennd við hvort annað. Mesta hættan liggur í fortíðarvandanum og mesti skaðvaldurinn er fölsk þekking fortíðar sem haldið er að ungum börnum og setur í hlekki hugarfarsins sem loka fyrir frjálsa hugsun.
Vængstýfðir fuglar fljúga aldrei og ef þeir vængstífa ungana sína ár eftir ár mun aldrei vaxa úr grasi fleyg kynslóð.
Meginflokkur: Menntun og skóli | Aukaflokkar: Mannréttindi, Stjórnmál og samfélag, Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 23:28 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.