Ég vill þakka U.S.M.C. fyrir aðstoð í Vestmannaeyja gosinu 1973

 

23 janúar 1973 Hófst eldgos í Vestmannaeyjum, eins og alþjóð veit.

Mér ásamt öðrum skipsverjum Varðskipanna var ýmist smalað saman af lögreglu, eða fengum símtal og komum okkur sjálfir niður á Reykjavíkurhöfn.

Sjálfur var ég ný kominn í land eftir langan túr á vitaskipinu Árvakur, sem sá um að flytja gasflöskur í  fjölmarga vita landsins með slöngubátum,og  með viðeigandi ævintýrum og vosbúð.

Þreytan seig yfir mig þegar í land var komið, enda átti þetta að vera síðasti túrinn minn og ég afþakkaði annars góðan félagsskap og áform um ærlega skemmtun á Þórskaffi, Klúbbnum, Tunglinu og Röðli.

Tók leigubíl heim í hjarta höfuðborgarinnar, austurbæ Kópavogs. Gekk inn og kastaði kveðju, en fór annars beint inn í herbergið mitt, henti sjópokanum út í horn  og sofnaði á leiðinni upp í rúm.

Næsta sem ég vissi var að fósturfaðir minn stóð við rúmagaflinn minn, alveg arfa vitlaus og krafðist þess að vita hvern andskotann ég hefði gert af mér, ég reis undrandi upp og spurði hann hvort hann væri alveg að tapa sér, þá upplýsti hann að tveir lögregluþjónar væru við útihurðina og biðu eftir mér, það lægi mikið á.

Annar lögregluþjónninn gekk inn ganginn og róaði fóstra en bað mig um að drífa mig, ég þyrfti að komast um borð í varðskip strax, Ég greip sjópoka með mér og fór út í svörtu Maríu, sem brunaði niður á höfn, þar var verið að losa landfestar og leggja frá í miklum flýtir, ég náði að stökkva um borð og svo var siglt með fullu vélarafli út úr höfninni og svo keyrt á öllum þeim hestöflum sem náðust úr vélum skipsins til Vestmanneyja.

Á leiðinni kom í ljós að eitthvað vantaði af áhöfn skipsins og var sagt að þeir væru ekki í standi til að koma um borð fyrr en þeir væru búnir að sofa úr sér aðeins, frétti seinna að ballferðin hafði endað í fangaklefum vegna smávægilegra slagsmála og misskilnings, eins og venjulega gerðist.

Þegar við komum til Eyja var fólksflutningum að mestu leiti lokið og okkar hlutverk var að vera síðasta skip frá Vestmannaeyjum, á síðustu stundum eyjarinnar.

Ákveðið var að loka höfninni og stöðva þá flutninga á búslóðum sem voru hafnir til að stefna ekki fleirrum í hættu en við réðum við að flytja með hraði burt, og gátum ráðið við að smala saman á stuttum tíma eða haldið um borð.

Ekki urðu allir sáttir við þessa ákvörðun og enduðum við á að sigla þvert  fyrir hafnarmynnið þannig að engin komst  inn í höfnina, það voru ekki fallegar kveðjurnar frá skipstjórum Eyjabátanna sem vildu bjarga sýnum og sinna eigum, en eftir smá þrátefli sneru þeir við og fóru til meginlandsins aftur.

 Við dormuðum svo fyrir framan hraunið sem rann að innsiglingunni og fylgdumst með hraða þess, til að geta komið síðustu Eyjamönnum  og öðrum út úr höfninni áður en hún lokaðist alveg, þá voru að mig minnir allir komnir um borð og Vestmannaeyjar mannlausar, enda talin hætta á að höfnin lokaðist og eyjan klofnaði.

Eftir 1-2 Klst  að mig minnir, var ákveðið að sigla aftur inn, því hraunrennslið var að hægja á sér hratt, þannig að siglt var inn og varðskipið notað sem stjórnstöð í Vestmannaeyjum, en öðru hvoru sigldum við upp að hraunjaðrinum til að fylgjast með hreyfingum hraunsins.

Á 2 eða 3 degi komu þeir menn til Vestmannaeyja sem minnst lof hafa fengið fyrir sýn störf, og  þá miklu og þögulu leiðsögn sem þeir veittu í öllu björgunarstarfinu, strax í upphafi.

Þetta voru  U.S Marine Corps (U.S.M.C.), Koma þeirra á staðinn var það sem þurfti til að koma skipulagi á verkefnið, okkar Íslensku björgunarsveitarmenn og skátar, ásamt sjálfboðaliðum voru í óskipulögðum hópum og hálf stefnulausir í fyrstu, en U.S.M.C. gengu skipulega til verks og fóru að negla fyrir glugga, til að stöðva rúðubrot og íkveikjur af heitum vikrinum, þá fóru Íslendingarnir líka að gera það, þá fór  U.S.M.C.  að moka vikri ofan af húsþökum til að minnka þungan sem var að brjóta niður þökin og kveikja í húsum,  eftir smá stund áttuðu Íslendingarnir sig og fóru að gera þetta líka.

Þannig leiddi U.S.M.C . Íslenskar björgunarsveitir áfram án beinna fyrirskipana og voru sá hópur sem  sýndi á ögurstundu, að með öguðum vinnubrögðum og samhæfingu, var hægt að áorka miklu á stuttum tíma og hef ég aldrei heyrt né vitað til þess að þeim hafi verið þakkað fyrir svo eftir væri tekið.

Þá var líka mikill munur á hegðun og viðhorfum, þegar við sigldum með björgunarmenn frá Vestmannaeyjum til að hvíla þá á öruggari stað, um borð í skemmtiferðarskipinu Gullfoss, það var skíta bræla og veltingur sem hentaði einmitt ekki hinu skelfilega lélega sjóskipi Árvakur.

Við fylltum dekkið af mannskap  um kvöldið og sigldum út úr höfninni til að koma þeim um borð í Gullfoss, ég man að mér fannst þetta vera óttalega væskilsleg  börn, en var samt sjálfur ekki nema 16 ára kjáni, þeir voru flestir strax sjóveikir og ældu eins og múkkar, hlupu þvers og kruss um skipið eftir því sem það valt á öldunum, og það var annað hvort mannþröng stjórnborðsmegin eða bakborðsmegin,  svo rigndi líka til að gera þetta sem æðislegast fyrir alla.

Við sigldum upp að lunningunni á Gullfoss sem gnæfði yfir okkur sem bjarg ,og hafði snúið sér til að við gætum verið áveðurs, þar voru stigar hengdir utan á skipið til að mannskapurinn gæti klifrað um borð, hundblauta og skjálfandi tókum við þá og studdum yfir lunninguna, til að þeir gætu klifrað upp, en fyrir neðan skullu skipin saman með ógnarkrafti og hefði enginn lifað sem misst hefði takið og fallið niður á milli skipa, eftir nokkurn tíma var siglt frá, því bæði skipin voru orðin skemmd, við snerum okkur og þeir sér og svo var lagt aftur upp að og fleiri klifruðu upp stiga og um borð í Gullfoss, að endingu var þessu hætt sökum versnandi veðurs og  skemmda á skipunum.

Við ferjuðum þessar fáu hræður sem voru eftir með slöngubátum en sigldum svo aftur inn til Vestmannaeyja og tókum U.S.M.C  um borð, veðrið hafði versnað enn og kannski var það bara hræðsla í þeim frekar en gleði yfir skemmti túrnum, en þeir skræktu og hlógu á meðan við sigldum á milli skipana á slöngubátunum til að ferja þá á milli.

Hef lúmskan grun um að þeir hafi eitthvað verið að fela hræðsluna með þessu, því  töluvert gekk yfir bátana.

Skömmu síðar fóru þeir á brott, enda Íslenskar sveitir búnar að ná tökum á þessu og hlutirnir farnir að ganga.

Kannski ættum við að reina að læra af þessu eitthvað svona 35 árum seinna ,og  koma okkur upp hóp af atvinnumönnum í björgun, sem eru í fullu starfi við það að þjálfa sig og aðra til björgunar og forvarnastarfa.

En allavega takk fyrir aðstoðina U.S.M.C


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Anna Einarsdóttir

Það var bæði fróðlegt og skemmtilegt að lesa þennan pistil. 

Anna Einarsdóttir, 23.1.2008 kl. 16:56

2 Smámynd: Þorsteinn Valur Baldvinsson

Takk Anna

Þorsteinn Valur Baldvinsson, 23.1.2008 kl. 17:04

3 Smámynd: Vilhelmina af Ugglas

Fróðlegt og vel skrifað. En hvenær hafa menn lært af reynslu annarra? Það er eins og hver kynslóð þurfi að gera sömu mistökin. Dálítið þreytandi.

Vilhelmina af Ugglas, 23.1.2008 kl. 17:29

4 Smámynd: Linda Samsonar Gísladóttir

Takk fyrir góða lesningu, þetta voru sérstakir tímar fyrir þá sem lifðu þá.

Ég man líka eftir þessum degi. Ég bjó í kópavoginum og var í MH, á 2. ári, að mig minnir. Ég fór að taka strætó þennan morgun í skólann, alveg óvitandi um gosið.

Þegar vagninn kom sagði vagnstjórinn mér að það væri enginn skóli hjá mér því það væri eldgos í Eyjum og hluti fólksins, sem hefði verið fluttur þaðan um nóttina, fengi inni í Menntaskólahúsinu.  Ég hélt hann væri að grínast en hann varð þá mjög alvarlegur á svipinn og ég kaus að trúa honum og sneri við. Kveikti ég á útvarpinu og vakti fjölskylduna og svo sátum við öll og hlustuðum á fréttirnar er þær bárust þennan morgun og var hugur okkar hjá því fólki, sem þurfti að flýja heimilin sín undan vá þeirri sem að því steðjaði.

Og enn hugsum við til þeirra í von um að þetta endurtaki sig ekki aftur. 

Linda Samsonar Gísladóttir, 23.1.2008 kl. 20:08

5 Smámynd: Guðrún Jóna Gunnarsdóttir

Frábært og ævintýralegt að lesa þessa frásögn. Takk fyrir að deila henni með okkur

Menn voru ekki alltaf sáttir við herinn hér, hann kenndi okkur margt og bjargaði okkur oftar en menn virðast vilja muna.

Guðrún Jóna Gunnarsdóttir, 23.1.2008 kl. 23:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband