Laugardagur, 3. janúar 2009
Afsökunarbeiðni
Vill bjarga Egilsstöðum með háskóla
Algeng sjón á Egilsstöðum en myndin var tekin þar fyrir stuttu. MYND/Björgvin Hilmarsson
Ég vil setja háskóla hérna. Það er fín aðstaða í gamla Alþýðuskólanum á Eiðum sem Sigurjón Sighvatsson kvikmyndaframleiðandi keypti á sínum tíma með því skilyrði að hann ætlaði að setja upp menningarsetur þar," segir Hildur Evlalía Unnarsdóttir, söngnemi frá Egilsstöðum, sem reyndar er flutt búferlum og býr nú á Stokkseyri.
Hildur er ómyrk í máli þegar hún ræðir um þróunina á Austurlandi en í grein sem hún ritaði í Morgunblaðið 2. júlí síðastliðinn undir fyrirsögninni Virkjun, álver og hvað svo?" segir hún þær áætlanir að bjarga Austurlandi með álveri og virkjun ekki hafa gengið sem skyldi.
Í greininni segir Hildur 335 íbúðir hafa verið til sölu á Egilsstöðum og nágrenni, þar af 200 glænýjar sem staðið hafi auðar síðan þær voru byggðar. Könnun blaðamanns sem fram fór í dag leiddi í ljós að 325 fasteignir eru til sölu á þessu sama svæði en gerður er fyrirvari um að einhverjar kunni að vera á sölu hjá fleiri en einum fasteignasala og birtist því ef til vill oftar en einu sinni á fasteignavefnum. Þá er ekki gerður greinarmunur á íbúðar- og atvinnuhúsnæði í leitinni.
Í grein sinni vísar Hildur til þess að eingöngu tvær auglýsingar um atvinnu á þessu svæði hafi fundist á Netinu, annars vegar hafi verið auglýst eftir nokkrum framhaldsskólakennurum og hins vegar starfsfólki í álverið. Þegar þessi frétt er rituð kemur upp ein atvinnuauglýsing sem kallar eftir verkefnastjóra Þekkingarnets Austurlands.
Fólk fúlt og reitt
Hildur Evlalía Unnarsdóttir
Ég sé fram á alla vega tíu ára aðlögunartíma fyrir sveitarfélagið til að rísa upp úr þessu, fá fólk aftur og skapa á ný almennan vinnumarkað annan en álverið," segir Hildur.
Ég myndi vilja sjá almennilegt menningarhúsnæði. Bærinn er búinn að kaupa gamla sláturhúsið hérna og er að breyta því í menningarhús. Minjasafn Austurlands og bókasafnið eru í húsnæði hér sem á eftir að klára og samkvæmt teikningu er þar gert ráð fyrir 300 manna leikhúsi sem ráðgert var þegar Björn Bjarnason var menntamálaráðherra. Þá fór hann um landið og skrifaði undir samninga við bæjarfélög um að þau rækju vissa menningarstarfsemi á hverjum stað og á Egilsstöðum átti að vera leikhúsmenning," segir hún enn fremur.
Hildur lætur ekki staðar numið að þessu sögðu heldur segist einnig vilja sjá bragarbót á heilbrigðisþjónustu landshlutans, til dæmis með því að færa Fjórðungssjúkrahúsið á Austurlandi frá Neskaupstað til Egilsstaða en eina fæðingardeildin á Austurlandi sé á sjúkrahúsinu.
Fólk er ósátt við ástandið, þegar ég kom hérna í vetur voru allir eiginlega bara fúlir og reiðir. Margir voru að missa vinnuna og fyrirtæki að fara á hausinn. Malarvinnslan, sem er helsti byggingaraðilinn að öllum þessum nýju húsum hérna, stendur mjög höllum fæti enda selst lítið af því húsnæði sem þeir hafa verið að byggja," segir Hildur.
Hún segir ferjuna Norrænu vissulega sigla til Seyðisfjarðar en umferð frá henni fari bara beint í gegnum Egilsstaði án þess að stoppa þar að ráði.
Ég vona að reynt verði að byggja upp sterkt samfélag hérna," eru lokaorð Hildar sem var stödd á Egilsstöðum þegar blaðamaður náði tali af henni en hún er sem fyrr segir flutt til Stokkseyrar.
Beint í meginmál síðu.Vísir, 18. júl. 2008 09:23
Segir ummæli um Malarvinnsluna á Egilsstöðum helber ósannindi
Atli Steinn Guðmundsson skrifar: Þetta eru helber ósannindi sem gera ekkert annað en að skaða okkur," sagði Lúðvík Friðriksson, framkvæmdastjóri Malarvinnslunnar á Egilsstöðum, sem hafði samband við ritstjórn Vísis og kvaðst verulega ósáttur við ummæli Hildar Evlalíu Unnarsdóttur í viðtali við Vísi í gær þar sem hún ræddi um ástandið á Egilsstöðum og sagði þar meðal annars að Malarvinnslan stæði höllum fæti.Þessu vísar Lúðvík alfarið á bug og segir rekstur fyrirtækisins með hinum mesta blóma, verkefnastaðan sé eins góð og frekast geti orðið. Við erum að malbika og klæða vegi hérna fyrir fimm til sex hundruð milljónir og ég er með 120 manns í vinnu," sagði Lúðvík og bætti því við að hann furðaði sig mjög á ummælum Hildar.Ég sætti mig alls ekki við svona ósannindi," sagði Lúðvík enn fremur og benti á að auk umfangsmikilla vegaframkvæmda væri Malarvinnslan að byggja Egilsstaðaskóla sem ráðgert væri að taka í notkun haustið 2009 og sú framkvæmd gengi öll að óskum sem frekast mætti vera.Ég þekki þessa manneskju ekki neitt og hef aldrei séð hana og hef ekkert annað að segja um það sem hún segir í þessari grein en þetta eru bara hrein ósannindi," sagði Lúðvík að lokum.Fréttina sem birtist á Vísi í gær má lesa með því að smella á hlekkinn hér að neðan.Beint í meginmál síðu.
Vísir, 18. júl. 2008 12:08
Jákvæðni og bjartsýni á Fljótsdalshéraði, segir bæjarstjóri
Atli Steinn Guðmundsson skrifar: Við ætluðum helst ekki að svara þessari grein í Morgunblaðinu vegna þess að það er svo mikið af staðreyndavillum og rangfærslum í henni að það er ekki svaravert," sagði Eiríkur Björgvinsson, bæjarstjóri Fljótsdalshéraðs, um grein Hildar Evlalíu Unnarsdóttur, Virkjun, álver og hvað svo?" sem Vísir fjallaði meðal annars um í gær í viðtali við Hildi. Ef það sem kemur fram hjá þessari stúlku eru ekki helber ósannindi þá er það verulega fært í stílinn," sagði Eiríkur og bætti því við að málflutningur Hildar væri allur litaður af því að hún væri yfirlýstur andstæðingur stóriðju á Austurlandi. Íbúum hér hefur fjölgað um 900 síðastliðin fjögur ár. Þessu hafa fylgt ný atvinnutækifæri og ný störf, bæði í tæknigeiranum og verslun og þjónustu, ekki bara í álverinu. Um fjórðungur starfsmanna álversins býr á Fljótsdalshéraði, það eru opinberar tölur, og það er nú allur fjöldinn. Þau störf sem hafa því orðið til hér á svæðinu eru ekki öll í álveri eða virkjun," sagði Eiríkur enn fremur og sneri talinu því næst að ummælum Hildar um að bjarga Egilsstöðum með háskóla. Tvö hundruð í háskólanámi Ég held hún ætti að kynna sér þessi mál betur áður en hún fer í loftið með eitthvað svona. Við höfum síðan 2001 verið í viðræðum við menntamálaráðuneytið um uppbyggingu háskólanáms hér á Austurlandi og háskólanám er stundað héðan frá Egilsstöðum. Um 100 nemendur stunda háskólanám héðan frá Héraði og um 200 á Austurlandi öllu," útskýrði Eiríkur og sagði frá uppbyggingu þekkingarseturs sem væri samvinnuverkefni háskólanna í landinu og atvinnulífsins. Engin þörf væri því á að koma upp háskóla á Eiðum þegar háskólanám væri stundað í Þekkingarneti Austurlands á Egilsstöðum. Eiríkur sagði enn fremur frá því að tveir væru á atvinnuleysisskrá á Héraði og væru það nýjustu tölur frá svæðisvinnumiðluninni. Á öllu Austurlandi væru 34 á atvinnuleysisskrá. Orð Hildar um fjöldaatvinnuleysi ættu því ekki við rök að styðjast. Um fjölda óseldra fasteigna sagði Eiríkur að skipulagðar hefðu verið íbúðaeiningar fyrir um 400 íbúa í kringum þá uppbyggingu sem átt hefði sér stað. Langstærstur hluti þessara eigna er byggður og búið í þeim. Í fyrsta skipti í mörg ár er orðinn hér virkur leigumarkaður. Vissulega stendur hér eitthvað af lausu húsnæði eins og mjög víða annars staðar á landinu," sagði Eiríkur. Ég er til dæmis með mitt hús á sölu og það er bara vegna þess að ég þarf að stækka við mig. Fjöldi aðila hér er að selja húsnæði vegna þess að sem betur fer er hér virkur fasteignamarkaður eins og annars staðar á landinu," sagði hann enn fremur. Blómlegt leikhúslíf Aldrei hefur verið eins blómlegt leikhúslíf hérna á Héraði og núna og við erum með eitt af fáum atvinnuleikfélögum á landinu auk áhugamannaleikfélags," segir Eiríkur og vísar þar til þeirra orða Hildar að leikfélögin á staðnum væru á vergangi. Þetta aðstöðuleysi sem hún er tala um var tímabundið, við erum að tala um viku eða mánuð og nú er búið að bjarga því og leikfélagið hefur mjög góða aðstöðu," áréttaði Eiríkur. Að lokum vék hann að því er Hildur lét í veðri vaka að neikvæðni og almenn óánægja væri ríkjandi á Egilsstöðum. Auðvitað eru einhverjir óánægðir og hafa verið meðal annars vegna virkjanaframkvæmdanna en mikill meirihluti þess fólks sem ég hitti og fólk sem býr hérna er almennt mjög bjartsýnt og jákvætt." Eiríkur vekur athygli á því að árið 2002 fæddist 31 barn á Héraði en 62 árið 2006 og 50 árið 2007. Ef þetta er ekki jákvæðni og bjartsýni hvað þá," segir hann.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 4.1.2009 kl. 09:44 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.