Aðskilnaður ríkis og kirkju

Hér er góð grein eftir Svan Sigurbjörnsson

Fréttablaðið, 16. des. 2009 06:00
Aðskilnaður ríkis og kirkju

Svanur sigurbjörnsson
Svanur Sigurbjörnsson skrifar um þjóðkirkjuna.

Í desemberblaði Þjóðarpúls Gallup 2009 var greint frá niðurstöðum nýrrar könnunar á afstöðu landsmanna gagnvart aðskilnaði ríkis og kirkju. Mælingin var unnin úr netkönnun sem gerð var dagana 12.-25. nóvember 2009. Svarhlutfall var 70,8% og úrtaksstærð 2.403 manns. Úrtakið er tilviljunarúrtak úr viðhorfahópi Capacent Gallup og eru í því einstaklingar af öllu landinu, 18 ára og eldri.

Niðurstaðan var sú að tæplega 60% segjast hlynnt aðskilnaði ríkis og kirkju, 20% eru hvorki hlynnt né andvíg og 20% andvíg. Af því fólki sem tók afstöðu með eða á móti, segjast því 74% vera hlynnt aðskilnaði en aðeins 26% andvíg.

Meirihlutastuðningur við aðskilnaðinn hefur verið stöðugur á bilinu 58-67% þar til að hann féll í desember 2007 og náði þá tæpum meirihluta, 51%. Niðurstaða könnunarinnar nú er því stórt stökk upp í stuðningi við aðskilnaðinn og hefur hann náð sögulegu hámarki í 74%. Þetta vekur spurningar um orsakir þess.

Ljóst er að eldra fólk vill halda frekar í óbreytta hefðina, en samt er meirihluti fyrir aðskilnaði í elsta hópnum. Í hópnum 18-29 ára er ákaflega lítil andstaða við aðskilnað og verður það að teljast athyglisvert m.t.t. framtíðarhorfa í málinu. Ekki kemur á óvart að nær allt fólk utan trúfélaga, eða 99%, eru hlynnt aðskilnaði. Annað sem vekur athygli í þessari könnun er að sá hópur í úrtakinu, sem er í Þjóðkirkjunni, er hlynntur með drjúgum meirihluta (70%) aðskilnaði ríkis og kirkju.

Hver er skýringin á þessu aukna fylgi við aðskilnað? Eftirfarandi eru mögulegar ástæður:

• Fólk skilji nú í auknu mæli að trúarbrögð eigi ekki að vera fjárhagslega tengd ríkinu. Trúmál séu einkamál sem ríkið eigi ekki að hafa afskipti af.

• Fólk geri sér grein fyrir að prestar eru hálaunastétt og kirkjan kostar mikið, ekki síst nú á tímum fjárhagsþrenginga og er álíka dýr og Háskóli Íslands í rekstri árlega.

• Fólk sjái að samningur ríkisins við Þjóðkirkjuna um launagreiðslur til presta hennar og starfsfólks Biskupsstofu út á jarðeignir út í hið óendanlega er óeðlilegur og ber að binda endi á.

• Fólk skilji að mismunun sé í kerfinu þar sem Þjóðkirkjan fær gríðarlega peninga, önnur trúfélög svolítið, en veraldleg lífsskoðunarfélög ekkert.

• Fólk vilji forgangsraða þannig að trúfélög þeirra séu ekki í forgangi og verði utan ríkisreksturs. Í netkönnun CG dagana 11.-29. júlí 2008 þar sem 65% af 2.102 manns 18-75 ára af öllu landinu svöruðu spurningunni; Hver eftirtalinna atriða eru að þínu mati það mikilvæg að þau séu verð þess að taka áhættu og færa fórnir fyrir?, kom í ljós að 69% völdu mannréttindamál, en í 9. sæti völdu aðeins 11% „trúarbrögðin mín". (sjá graf hér við hliðina).

• Fólk treysti minna Þjóðkirkjunni. Skv. Þjóðarpúlsi Gallup um traust til stofnana, var traustið 55% í feb. 2006, 52% í feb. 2008, en dalaði í 41% eftir hrunið í feb. 2009. Ýmsar aðrar stofnanir misstu einnig traust, en á sama tíma hélt heilbrigðiskerfið sínu trausti á bilinu 68-73% og lögreglan á bilinu 78-80%. Endurtekin hneykslismál og vangeta Þjóðkirkjunnar til að greiða fljótt og örugglega úr siðferðislegum brotamálum innan hennar hafa minnkað traustið.

• Fólk vilji ekki að ríkið láti Þjóðkirkjuna draga úr framförum í gerð hjúskaparlaga fyrir alla, líkt og hún hefur gert endurtekið. Fólk vilji ekki að börn séu sjálfkrafa skráð í trúfélag móður.

• Fólk innan Þjóðkirkjunnar vilji að hún standi algerlega sjálfstæð.

• Aukin umræða í bloggheimum og á vettvangi stjórnmálanna um aðskilnað ríkis og kirkju.

Það verður með hverjum degi ljósara að Þjóðkirkjan getur aldrei orðið sameiningartákn allra landsmanna og það er hvorki sanngjarnt né æskilegt að ætlast til að hún þjónusti alla. Fólk annarrar trúar eða trúlaust, á rétt á því að byggja upp sína eigin valkosti og þurfa ekki að flýja opinberar stofnanir (t.d. leikskóla og grunnskóla) vegna yfirgangs eins trúfélags þar með trúboði eða trúarlegri starfsemi.

Vonandi er þessi jákvæða útkoma nú merki um að smám saman sé það að lærast að það er ekki eðlilegt að ríkið reki eitthvert útvalið trúfélag, þó að saga þess sé löng með þjóðinni. Rekstur lífsskoðunarfélaga, trúarlegra eða veraldlegra, á í mesta lagi að hafa tengsl við ríkið gegnum sóknargjaldakerfið, en því sukki og þeirri mismunun sem þessi málaflokkur hefur einkennst af verður að ljúka. Tökum höndum saman og mótmælum Þjóðkirkjufyrirkomulaginu sem svo augljóslega er rangt og á skjön við vilja meirihluta þjóðarinnar.

Höfundur er læknir og stjórnarmaður í Siðmennt.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband