Fimmtudagur, 24. desember 2009
Það verður að leysa þetta skulda rugl
Manni ofbýður orðið ruglið vegna Icesave málsins og að því er virðist getuleysi stjórnvalda.
Það hlýtur að vera forgangsmál að fá á hreint hvaða lagalegu skuldbindingar hvíla á okkur um að greiða þessar skuldir og hvort við eigum endurkröfu rétt á þá sem til þeirra stofnuðu, einnig að fá á hreint hverjir höfðu heimild til og gáfu fyrir hönd þjóðarinnar heimild fyrir þessum skuldbindingum.
Þegar fyrir liggur ótvíræður úrskurður um greiðsluskylduna verður að setjast niður og semja um uppgjör skulda í samræmi við raunverulega greiðslugetu ríkisins en ekki bara samþykkja eitthvað samkomulag um greiðslur sem er fyrirfram séð að endar í vanskilum.
Þjóð sem ekki semur á ábyrgan hátt og stendur við sitt getur ekki vænst þess að öðlast aftur góðan orðstír.
Hér er frétt frá RÚV:
Fyrst birt: 24.12.2009 13:38
Síðast uppfært: 24.12.2009 13:47
Ofurskuldbindingar vegna Icesave
Birkir Jón Jónsson, varaformaður Framsóknarflokksins, segir verulegan vafa leika á um það, hvort Íslendingar fái risið undir þeim ofurskuldbindingum, sem fylgi Icesave-samningunum við Breta og Hollendinga.
Í skýrslu IFS greiningar er farið ítarlega yfir helstu áhættuþætti tengda mikilli skuldabyrði þjóðarbúsins. Þar kemur ítrekað fram, að skýrsluhöfundum þykir efnahagsspár jafnt Seðlabankans sem Alþjóðagjaldeyrissjóðsins helst til bjartsýnar og benda þeir á allmörg dæmi þess, að vart sé að vænta bata á næstu árum og að væntar tekjur séu óraunhæfar. Þeir benda á að vextir Icesave samninganna við Breta og Hollendinga séu háir og að skuldastaða þjóðarinnar og ríkisins sé mjög erfið. Óvissa ríki um hvaða áhrif þessi skuldastaða hafi. Háar erlendar skuldir hafi tilhneigingu til að draga úr hagvexti vegna samdráttar í fjárfestingum og skattahækkanir geti einnig haft neikvæð áhrif á hagvöxt, þær dragi úr fjárfestingum og leiði til minni notkunar á vinnuafli, eins og það er orðað í skýrslunni, það er leiði til aukins atvinnuleysis.
Þeir segja að gjaldeyristekjur dugi ekki til að greiða af skuldunum á næstu árum, þótt allar gjaldeyristekjur kæmu til. Þeir telja einnig að afgangur af vöruskiptajöfnuði muni minnka á næstu árum, sem leiði til enn meiri erlendra skulda.
Birkir Jón segir skilaboðin vera skýr, verulegur vafi sé á að þjóðin rísi undir þessu fargi.
frettir@ruv.is
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Evrópumál, Fjármál, Utanríkismál/alþjóðamál | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.