Liðin tími

Á lífsleiðinni lendum við öll í ýmsum aðstæðum sem eru óvenjulegar, öll teljum við okkar líf og upplifanir einstakar enda erum við öll mjög sjálfhverf og teljum okkur vera miðja alheimsins og það sem allt snýst um.
Til að sagan sé sem réttust er best að sem flestir skrifi sýnar upplifanir á lífsleiðinni þannig að það sé hægt að fá heildarmynd atburða frá sem flestum sjónarhornum.
Sjálfur hef ég lent í þeim aðstæðum að þurfa að takast á við eldgos, mannskætt aurflóð og upplifað hluti sem voru ungri sálu kannski ekki hollir, þetta var fyrir tíma áfallahjálpar þegar fólk vann sjálft úr hlutunum eða brotnaði bara og hvarf dofið inn í vímu eða stofnanaheiminn.
Fyrir suma fór þetta illa, en öðrum tókst að vinna úr reynslunni og komu út úr þessu sem sterkari einstaklingar.
Ekkert okkar hefur sennilega sloppið án einhverskonar áfalls og lífsreynslan hefur örugglega mótað okkur sem persónur til lífstíðar.
En ég ætla að gera tilraun til að skrifa og birta reynslusöguna frá mínum sjónarhól, það hjálpar mér sjálfum að hreinsa út eitthvað af óhreinum sálarþvottinum sem eflaust leynist í sálartetrinu og kemur þá kannski hreinni út eftir því sem maður rifjar upp. Jafnvel það sem hugurinn hefur líklega falið í gegn um árinn til að verja sjálfið eftir veikum mætti gæti skolast út en sumt verður aldrei á blað sett, enda ekki rithæft né hollt viðkvæmum lesenda.
Hvers vegna ég segi söguna á blogginu, ég veit ekki, hef líklega bara ekkert að fela og vill að mínir ættingjar geti lesið þetta ef þeir vilja eða nenna og svo geri ég þetta líka aðallega fyrir mig.
Erum við annars ekki öll að semja okkar eigin grafskrift með orðum og athöfnum.

Árið 1974 fór ég ný orðinn 17 ára gamall og réði mig á millilandaskip í eigu skipafélagsins G.A.G. HF. Enda taldi ég mig orðin vanan í millilandasiglingum og sem varðskipsmann.
Við voru fimm sem vorum ráðin í flýti, ég og þrír aðrir hásetar ásamt enskri konu sem var brytinn, við vorum send til Honduras í mið Ameríku en þar hafði fellibylurinn Fifi gengið á land,( http://en.wikipedia.org/wiki/Hurricane_Fifi#Hurricane_Fifi) mestur vindhraði var 175 km á klst og létust um það bil 8.000 manns í vatns og aurflóðum, en á 36 klst rigndi 610mm, nánast allur fiskveiðifloti Honduras eyðilagðist, helmingur allrar uppskerunnar eyðilagðist og 95% bananauppskeru, 14 brýr skoluðust burt og borgirnar Choloma, Omoa, Trujillo og eyjan Roatan þurrkuðust nánast út. 80% af járnbrautar teinum í landinu eyðilögðust og vegakerfið laskaðist verulega.
Við flugum frá Keflavík til New York með vél Flugleiða og biðum þar í sólahring eftir skiptiflugi með 747 jumbo þotu til Houston í Texas en við skemmtum okkur við að telja flugfreyju þar um borð trú um að við ættum heima í 3 hæða snjóhúsum á Íslandi og til væru hærri snjóhús með lyftum.
Í Houston fórum við yfir í gamlan DC-3 vél að ég held sem var ótrúleg andstæða við 747 breiðþotu og mikil upplifun, aftast í vélinni sat fólk á bekkjum og hélt ein konan á trébúri með hænsnfuglum í fanginu, skömmu eftir að við komum okkur fyrir í sætunum ruddust 3-5 lögreglu menn um borð og handtóku farþega þarna aftur í veifandi byssum og með látum, drógu hann út úr vélinni eins og hund í handjárnum en nokkrum mínútum seinna var eins og ekkert hefði í skorist og öllum fannst þetta greinilaga eðlilegt og jafnvel daglegt brauð. Flugfreyjurnar komu um borð og það vakti athygli mína að það var búið að gera við búningana þeirra sem voru með áberandi bótum og saumuðum rifum á eitur grænum búningunum, ekki lagaðist ástandið þegar órakaðir flugmenn sem lyktuðu af áfengi skjögruðu fram í flugstjórnarklefann með skakkt bindi og virtust hafa sofið í gallanum, ég pantaði tvöfaldan romm og kók enda var þetta farið að minna á svona bíómynd svipaða og myndina Casa Blanka.
Coca cola kostaði peninga en romm var frítt, hreyflar vélarinnar hóstuðu í gang og vélin sem greinilega var mikið ofhlaðinn, virtist aldrei ætla að ná sér á loft og það var eins og vélin blakaði vængjunum eins og hún héldi að hún væri fugl en ekki flugvél.
Hún skreið loks upp frá flugbrautarendanum og virtist aldrei ætla að ná sér upp í flughæð en við drukkum ótæpilega alla leiðina þar til komið var inn til lendingar á flugvöll sem var um það bil 45 km fyrir utan borgina San Pedro Sula í Honduras, þegar hurð vélarinnar opnaðist kom hitabylgjan eins og högg á móti manni og við skjögruðum eftir krosssprunginni steyptri flugbrautinni að flugstöðinni, þar biðu þjófóttir tollverðir sem hirtu segulband, myndavél ofl úr töskunum okkar við skoðun en skiluðu svo aldrei aftur til baka, þeir tóku bara utan um skammbyssurnar þegar við fórum að krefjast horfinna hluta aftur og við hættum loks að þrasa við þá.
Við fundum okkur leigubíl og báðum hann að aka okkur til San Pedro Sula en hann keyrði okkur á lélegt sveitahótel stutt frá flugvellinum og fullyrti að vegurinn til San Pedro Sula væri lokaður sökum flóðanna. Þar bókuðum við tvö herbergi yfir nóttina og ætluðum að finna leið til borgarinnar daginn eftir en hótelið var 3 hæða, stór og gömul timburbygging sem greinilega mátti muna betri daga og var allt í niðurníðslu.
Þegar við komum inn þá þagnaði kliðurinn við barinn en mannskapurinn þar var ekki frýnilegur né sérlega vinalegur, við fórum nánast strax upp á herbergi og varla vorum við komnir inn um hurðina fyrr en bankað er og ágengar og kornungar en gullfallegar stelpur streymdu inn til að bjóða okkur blíðu sína gegn vægu gjaldi.
Það liðu ekki nema 2 til 3 klst þar til miðaldra Breti sem hafði frétta af þessum 5 hvítu mönnum á hótelinu kom og bankaði hjá okkur, hann fræddi okkur á því að tveim kvöldum áður höfðu 3 hvítir menn verið myrtir og rændir á þessu sama hóteli og að stelpurnar væru venjulega sendar til að kanna fjárhaginn fyrir krimmana, hann bauðst til að koma okkur á öruggari stað og þáðum við það með þökkum.
Við drifum okkur til að taka saman farangurinn og hann útvegaði okkur leigubíl frá San Pedro Sula en keyrði okkur sjálfur til móts við hann. Hann hafði mælt sér mót við leigubílinn hjá brú sem hafði skolast burt í vatnsflóðinu, þar urðum við að ganga yfir með farangurinn á hrörlegri bráðabyrgða göngubrú sem búið var að koma upp, rotnunarlyktin var stæk vegna fjölda uppblásinna rotnandi dýrahræja á víð og dreif og verið var að hirða upp lík í árfarveginum en þau bárust enn uppþaninn með vatninu eftir því sem eðjan sleppti takinu eða þau flutu upp.
Á bakkanum hinumegin beið leigubíllinn og við komumst til borgarinnar á hótelið sem hýsti alþjóðlegt björgunarliðið frá sameinuðu þjóðunum og öðrum þjóðríkjum, þetta var Hilton San Pedro Sula hotel, lúxus hótel í alla staði með loftkælingu þrem veitingarstöðum, minjagripaverslun, rakarastofu, útisundlaug í rúmgóðum garði sem hótelbyggingin umkringdi, 2 barir og herbergisþjónusta 24/7, auk þess sem hótelið sendi öryggisverði til fylgdar ef maður fór út að ganga í nágreni hótelsins, þetta var fyrir mér ótrúlega óraunverulegt í miðju hamfarasvæði þar sem börnin og betlararnir börðust um smápeninga fyrir utan veggina, en einn ferðafélaginn var með þroska á við kornabarn og hló dátt þegar hann kastaði smápeningum út af svölum hótelsins og börnin börðust fyrir neðan á stéttinni.
Ég gleymi aldrei eldri konu sem sat á tröppunum við eina kirkjuna í San Pedro Sula, andlitið var markað þjáningu og sorg, hún virtist vera holdsveik og búin að missa neðan af fótum, ásamt annarri hendinni frá úlnlið, ég fór til hennar og gaf henni laumulega peninga, sem hún faldi í hendi sér strax í ótta við að hinir betlararnir rændu hana, gamla konan felldi þögul tár og reyndi greinilega að kreista fram bros, en augun sögðu allt sem segja þurfti, ég gekk niður tröppurnar og betlaragengið sem hafði fylgt mér frá Hótelinu og suðað allan tíman, stóð við neðstu tröppuna þögult og beið, það var eins og enginn þyrði að nálgast gömlu konuna og að óttavald trúarinnar héldi aftur að þeim, en um leið og ég sté í neðstu tröppuna byrjaði rellið aftur og togið í ermar en stuttu seinna fékk ég frið því hótelstarfsmaður kom til móts við mig og hastaði á betlarana.
Mér hafði greinilega verið fylgt eftir af einhverjum ástæðum en yfirmaður öryggismála á Hótelinu hafði greinilega mikinn áhuga á mér og mínum athöfnum því þrisvar eða fjórum sinnum var ég stoppaður af öryggisvörðum og spurður um hvað mikið ég hefði greitt fyrir tiltekna þjónustu í verslun og veitingarsölu, tvisvar fóru öryggisverðirnir og náðu í ofgreitt fé en báðust afsökunar fyrir hönd hótelsins. Viðkomandi starfsmaður sást ekki aftur innandyra enda hefur yfirmaðurinn líklega séð strax hvað þessi Íslenski fermingardrengur var bláeygður og auðveld bráð svikahrappa, og var ég komin með þá tilfinningu að með öllum mínum athöfnum væri fylgst sérstaklega og ég væri notaður sem beita til að lokka fram svikahrappa innan veggja hótelsins sem utan.
Biðin á Hótelinu reyndi á þolinmæðina og dagurinn endaði nánast alltaf á barnum í kjallaranum þar sem nokkrir Bandarískir og innfæddir yfirmenn af bananaplantekrum komu saman nánast öll kvöld til að drekka og segja sögur, fljótlega átti maður helling af svokölluðum vinum sem fögnuðu nýjum hlustanda og var barþjónunum fljótlega sagt að Íslenski krakkinn skildi drekka frítt að vild alla daga á kostnað þeirra. Þetta voru miklir höfðingjar og bráðskemmtilegir í upphafi en þegar ég fór að gefa fylgdarliði þeirra gætur breyttist myndin verulega.
Það kom fram annar einstaklingur hjá sumum þeirra er áfengið var farið að virka og ég man sérstaklega eftir einu þeirra sem kallaði alltaf á fylgdarmann sinn og jós yfir hann skömmum þegar hann var orðin ofurölvi, tvisvar löðrungaði hann manninn svo ég sá en greinilegt var að hann var orðin því vanur og kvöldið endaði svo á því að hann dröslaðist með ofurölvaðan durtinn út af hótelinu en kom svo samt aftur á hverju kvöldi með durtinum. Aðstoðarmaðurinn sat svo sjálfur hokinn og beygður við enda barsins með bjór í hendinni kvíðinn á svip, enda ekki vitandi hvort yfirmaðurinn yrði kátur eða illur er liði á kvöldið.
Ég gaf mig á tal við þennan mann og hann sagðist hafa verið ráðsmaður á banana plantekrunni í nokkur ár en Bandarískir eigendur skiptu reglulega um yfirmenn, hann átti konu og börn sem þyrfti að brauðfæða en yfirmennirnir væru samt misgóðir.
Hann hafði ekkert val og lét þetta yfir sig ganga því kannski yrði næsti yfirmaður skárri.

Sökum þess að fólk hafði höggvið niður tré og brennt runnagróður til að geta stundað akuryrkju og aflað eldiviðar, var ekkert lifandi rótarkerfi til að halda jarðveginum saman, þegar hann svo yfirmettaðist af vatninu sem fellibylurinn flutti með sér, breyttist hann í leirkennda leðju sem rann niður í dalina, kaffærði byggingar og drekkti fólki sem búfé, í einum bænum á milli San Pedro Sula og Puerto Cortes, sá ég krómaðan framstuðara af dráttarbifreið liggja á jörðinni, tveim dögum seinna sá ég að búið var að grafa stuðarann upp en hann var framan á stórum Amerískur White dráttarbíll og tankurinn stóð enn upp á endann, hálfur upp úr jörðu. Þá fyrst áttaði ég mig á því að bíllinn hafði staðið upp á endann í drullueðjunni og stuðarinn sem ég hafði séð var ekki liggjandi á jörðinni heldur áfastur þessum dráttarbíl með tank, það var því var á annan tug metra niður á fyrra yfirborð.
Þegar leirkenndur jarðvegurinn í aurflóðinu stöðvaðist, hafði hann sest sem steypa á grafir hinna kviksettu fórnalamba hörmunganna.

Eftir 10 daga dvöl í góðu yfirlæti á Hilton Hótelinu í San Pedro Sula, var loksins gefið fararleyfi til Puerto Cortes þar sem vegurinn var orðin fær og skipið var komið til hafnar.
Rútan sem við fórum með var gömul og minnti á rútur sem notaðar voru í þórsmerkur ferðir á Íslandi tíu árum áður en eins og við var að búast þá komu innfæddir með fiðurfénað inn í rútuna eins og í flugvélinni forðum, á 60 km leiðinni á milli San Pedro Sula og hafnarborgarinnar Puerto Cortes, voru engar vegstikur eins og ég hélt í fyrstu, heldur voru þar krossar á gröfum þeirra sem höfðu verið jarðaðir í vegkantinum, sökum mikils fjölda dýrahræja og mannslíka sem lágu á víð og dreif í hitanum var fljótlega farið að draga saman skrokkana í hauga og brenna til að forðast hugsanlega sóttkveikjur og óbærilega rotnunarlyktina, í hitabeltinu er rotnun hröð og því fáir valkostir aðrir í boði þegar svona mikið mannfall er en fjöldagrafir og líkbrennur.
Vegalengdin er ekki mikil á milli San Pedro Sula og Puerto Cortes en þetta var samt yfir 4 tíma ferðalag með stoppum sem virtust aðallega vera til að gefa þorpsbúum á leiðinni færi á að selja farþegum vörur, þetta var skrítin ferð, fátækleg hreysi stóðu með veginum og mynduðu smá þorp öðru hvoru en leiðin var vörðuð hvítum krossum á gröfum fórnarlamba. Allavega tvisvar voru fjölmennar tjaldbúðir Rauða Krossins rétt hjá veginum en hitinn var óbærilegur og ég batt klút um höfuðið því svitinn varnaði annars alla sýn, allar rúður voru niðri til að nýta kælinguna sem fékkst er bíllinn var á ferð og kæfandi vegrykið vandist.

Þegar við komum til Puerto Cortes og komumst um borð ákvað ég að drífa mig í sturtu en hrökklaðist frá því það sem átti að vera kalda vatnið var sjóð heitt, ég dreif mig þá út á dekk án þess að vera í skóm og dansaði svo smá stríðsdans því stálið var sjóðandi heitt eftir sólina og dvölin á loftkældu hóteli á daginn og næturbrölt hafði ekki hjálpað mikið til við aðlögun því hitinn var lamandi og maður bruddi salttöflur og drakk vökva eins og svampur en það lak allur vökvi nánast jafnóðum út um svitagötin, ég greip á það ráð að gera hlé á vinnu og sofa í 4 tíma um miðjan dag en 2 til 4 tíma yfirnóttina á meðan ég var að venjast hitanum.
Skipið flutti sojaolíu frá Bandaríkjunum og karlarnir sem voru að vinna við uppskipun á sojaolíunni voru mikil snyrtimenni en með afspyrnu þjófóttir að sögn stýrimanns, ég var því settur í þjófagæslu á þilfari, stóð við lestarlúguna og fylgdist með körlunum vinna.
Karlarnir í uppskipun komu í hvítum hreinum fötum um borð með böggul undir hendinni, í honum reyndist vera vinnugallinn sem reyndist vera hálfgerðir larfar og virtust vera saumaður úr striga og einhverjum efnis bútum.
Karlarnir fóru ofan í lest til að skipta um föt og pökkuðu hversdagsfötunum saman brotnum í böggulinn sem þeir komu fyrir á góðum stað áður en uppskipun hófst
Sojaolían var í svo kölluðum gallon brúsum úr stáli með handfangi eins og smurolíubrúsar voru á Íslandi. Þessu var komið fyrir í kössum með um það bil 24 brúsum, þetta settu karlarnir í net sem var breitt út, þannig að þeir gætu hlaðið kössunum á það og svo var kaðall þræddur í öll hornin, húkkað í krókinn á bómum skipsins, og híft í land en þetta var afskaplega seinlegt og tók yfir viku að losa skipið.
Fljótlega náði ég samkomulagi við karlana í lestinni um að þeir héldu sig þar og væru ekki að þvælast um skipið, í staðinn leit ég undan 3 til 4 sinnum yfir daginn á meðan þeir stungu gat með skrúfjárni í neðra hornið á nokkrum brúsum af sojaolíu og drukku innihaldið til að fá næringu og vökva, þetta voru ekki efnamenn sem unnu við uppskipunina heldur voru þetta fjölskyldumenn og bændur sem komu matarlausir til að afla tekna.
Þegar vinnudegi við uppskipun lauk þá fóru sumir karlanna á knæpurnar í Puerto Cortes en flestir þeirra hreiðruðu bara um sig í lestinni og sváfu um borð, þeir höfðu ekki annað húsaskjól né vildu greiða fyrir slíkan munað. það var að vísu bannað að vera um borð en við þóttumst ekki sjá þá þegar lestinni var lokað og þeir létu ekki heyra í sér, en læddust sem kettir ef þeir fóru í land og nokkrir þeirra sáu um gæslu í staðinn, þannig að við gátum farið og sukkað í lastabælum hafnarborgarinnar Puerto Cortes á nóttunni.

Einn af þeim sem hafði verið ráðinn um leið og ég var maður komin yfir miðjan aldur sem stundað hafði millilandasiglingar í áratugi og þvælst um allan heim, með honum í för var Ensk kona sem var ráðin sem bryti og tóku þau nánast strax að sér uppeldið á mér en þó ég hefði siglt um með varðskipum við Íslandsstrendur og barist við að koma gasflöskum í vita landsins á zodiac gúmmítuðrum að vetri til í brimi eða siglt með millilandaskipum til Vestur og Austur Evrópu þá var ég sem bláeygður sveitapiltur og hvítvoðungur í hafnarborgum mið Ameríku.
Þau hálfpartinn ættleiddu mig og reyndu að kenna mér þær grundvallarreglur sem gilda við þessar aðstæður og hefur sú kennsla reynst mér alla tíð vel en karlinn var nokkuð sérstakur, í nokkrar vikur reyndi ég að komast að honum sofandi vegna veðmáls en hvernig sem ég læddist eða hvenær sólahringsins sem ég reynd þá var hann alltaf vakandi eða með opin augun en ég held að hann hafi sofið þannig.
Hann hafði þann sið að hella viskí í vatnsglas sem stóð við kojuna hans fyrir svefninn og setja filt lausa Camel sígarettur fyrir aftan sitt hvort eyrað en reykja eina Camel rétt áður en hann lagðist út af, 4 tímum seinna var hann vaknaður án klukku, búin að reykja báðar Camel retturnar og svolgraði í sig fullu Viskí glasinu, þetta var morgunverðurinn og man ég ekki eftir einum einasta degi sem hann var ekki eitthvað í glasi, mér skilst að þannig hefði hann verið búinn að vera í áratugi á flakki um heiminn hálfdrukkinn.
Líklega hefur sakleysislegt útlitið og greinilega ungur aldur hjálpað mér mikið á þessum tíma, allavega voru mellurnar á kránum í miklu uppáhaldi hjá mér fljótlega því þær voru komnar um leið og ég var að koma mér í vandræði og gátu undantekningarlaust stillt til friðar eða dregið mig í var, var fljótlega orðinn sem heimalningur á kránum og nánast friðhelgur sem allra vinur og álitinn vera undir sérstakri vernd gleðikvenna og uppskipunarliðsins.
Ég hef alltaf síðan álitið gleðikonur al besta friðargæslulið sem fyrirfinnst í heiminum og vinkonur í raun, en held samt að þær hafi kannski vitað að ef hvíti krakkinn yrði drepinn þá væri fjandinn laus og lítið um tekjur í bráð.

Einn daginn kom herdeild á svæðið og keyrði inn til Puerto Cortes seinni part dags þegar tekið var að skyggja og með að mig minnir 5 hertrukka auk nokkurra jeppa, 2 trukkar voru fullir af hermönnum en hinir trukkarnir voru tómir. Hermennirnir voru snöggir að loka öllum flóttaleiðum út úr bænum og greinilega vanir mannaveiðum.
Ég sat á einum barnum með Norðmanni sem var að slæpast þarna og hafði verið á staðnum í rúman mánuð eða svo.
Hann var nýkomin frá Hong Kong og hafði verið þar í rúman mánuð eða svo að slæpast en réði sig svo á skip sem sigldi til Puerto Cortes, þar fór hann í land og ætlaði að vera í nokkrar vikur í viðbót kannski, var búin að þvælast svona um heiminn á milli hafnarborga í nokkur ár.
Allt í einu var hrópað þegar trukkarnir komu og flestir bargestirnir hlupu sem óðir menn út um bakdyrnar en aðrir tróðu sér út um framdyrnar og eða reyndu að fela sig.
Norðmaðurinn greip í öxlina á mér og sagði, vertu graf kyrr eins og steinn því þú ert hvítur og verður ekki snertur en ég hlýddi er hermenn komu hlaupandi inn og ráku mannskapinn sem hunda út á strætið án nokkurs tillits til þess hvort þetta voru fjölskyldumenn eða rónar.
Þeir sem veittu mótspyrnu eða kvörtuðu voru barðir með byssuskefti eða kylfu og dregnir svo út ef ekki tókst betur til, þeir sem höfðu reynt að komast út um bakdyrnar hlupu beint í fangið á herflokknum sem beið þar og voru svo reknir upp á pallana á hertrukkunum, einhverjir hlupu til baka inn á barin en voru bara gripnir af herflokknum sem kom inn um framdyrnar, engin slapp.
Ungur maður sem ég kannaðist við frá uppskipunarflokk á höfninni var þarna með föður sínum og grátbað hermennina um miskunn en var barin í gólfið og dregin á löppinni út en faðirinn hrakin á undan með barsmíðum, þegar allir voru komnir út gekk liðsforingi inn á barin og leitaði af sér allan grun um að einhver hefði sloppið, hann heilsaði okkur vingjarnlega og gekk út að jeppanum, stuttu seinna komu tveir hermenn og tóku stúlkuna sem ég var að ræða við á barnum, hún var ung og falleg stúlka sem bjó í bænum og vann í verslun, ein fárra sem ég kynntist og var ekki gleðikona, ég gleymi aldrei hvernig augun í henni dóu þegar þeir leiddu hana að herjeppanum og tróðu þar inn, trukkarnir voru orðnir fullir af mönnum og bílalestin ók á brott en stúlkan er hugsuð sem nesti fyrir liðsforingjann sagði Norðmaðurinn við mig, og hélt í handleggina á mér til að vera viss um að ég gerði ekki einhverja vitleysu, sumu getum við ekki breytt sagði hann við mig.
Barþjónninn sagði mér seinna að herinn gerði þetta öðru hvoru og væri sérstaklega stórtækur núna því vegna fellibylsins væri þörf á að sækja vinnuafl í brúarsmíði, vegagerð og fleira, herinn tæki þá sem væru á börunum og flytti þá nauðuga til vinnu en þeim væri yfirleitt haldið í 2 til 3 mánuði við vinnu og fengju greidd smávægileg laun um leið og þeim væri sleppt, flestir kæmu svo aftur á barin og drykkju út peningana en lentu svo jafnvel aftur í smölun hjá hernum, aumt líf það.

Þessi bar var nánast gleðikonu laus og því miklu meira af heimamönnum sem sóttu hann, ég klæddi mig fljótlega að hætti heimamanna og barinn varð mér sem annað heimil því, þarna komu hafnarverkamennirnir til að drekka að lokinni vinnu og Norski ævintýramaðurinn sem hafði sest þar að fyllti mig af reynslusögum frá flakkinu um hafnarborgir heimsins
Bareigandinn reyndist mér líka vel og eitt skiptið drakk ég frá mér flest allt vit fyrir hádegi og vafraði svo um borð til að sofa en gleymdi veskinu á barborðinu, 4 eða 6 klukkustundum seinna kom ég aftur á barinn og það fyrsta sem ég sá var veskið mitt á barborðinu, ég gekk að því og opnaði en það hafði ekki verið tekinn dollari úr því þó þarna kæmu tugir ef ekki yfir hundrað manns á þessu tímabili sem ég svaf og enginn hafði snert veskið.
Bláfátækt fólk er ekki allt óheiðarlegt og þjófótt og ég bauð körlunum sem sátu við barin hjá veskinu sitt hvora flöskuna enda hafði ég grun um að þeir og barþjónninn hefðu átt hlut að máli, enda staðfesti bareigandi það seinna, góður karl.
Ég var að ganga frá barnum einn daginn að höfninni til að fara um borð og gekk eftir miðri aðalgötu bæjarins þegar svona 8 til 10 ára strák pjakkur kom hlaupandi til mín og rétti að mér stórt stykki af hassplötu, það var um það bil 30 x 30 x 5 cm stórt stykki af blautum dökkum hass klump, very good shit, the best hashish in town sagði krakka ormurinn á bjagaðri ensku, only a few dollars for you my friend, ég hló að krakkanum og labbaði burt því það var ekki fyrr en töluvert seinna sem ég áttaði mig á því hvað barnið var að reyna að selja mér fyrir allra augnsýn um hábjartan dag en engum virtist finnast neitt athugavert við það.
Síðasta kvöldið sem við lágum við bryggju, en til stóð að leggjast við ankeri utan við höfnina, kom einn félaginn til mín sauðdrukkinn og krafðist þess að ég kæmi með sem vottur á einn aðal mellubarin því hann sagðist hafa séð alveg dásamlega mellu þar og yrði að fá hana.
Ég var tregur til en fór samt með honum því enginn annar nennti, bátsmaðurinn hafði verið að pexa eitthvað og kallað hann bölvaðan lygara sem segði ekkert nema frægðarsögur af sér um hrifningu gleðikvenna af mikilfenglegum limnum, bátsmaður sagði þetta vera kjaftæði og lygi allt samann.
Við löbbuðum upp að uppáhalds mellubarnum hans og fórum beint í drykkju, ég spurði um klósett á barnum og var vísað á hurð sem reyndist vera að herbergi sem hafði klósett fyrir miðju dimmu herberginu, upp úr klósettinu stóð haugur af brúnum og búið var að gera þarfir sýnar út um allt gólfið, ég fór aftur á barinn og var þá bent á aðra hurð sem opnaðist beint út í garðinn fyrir aftan húsi en ég gafst upp og fór aftur inn, vinurinn kallaði á mig og var orðin virkilega glaður því hann hafði fundið dásamlegu melluna sína og krafðist þess að ég kæmi með upp á herbergi til að horfa á og vera sem vitni um dugnaði hans og karlmennsku.
Ég neitaði í nokkur skipti en gafst svo upp fyrir rest og fór með þeim upp á herbergi, ég neitaði að fara lengra en að herbergishurðinni og hlusta sem vitni á gleðina en hann tók það bara ekki í mál nema ég sæi upphafið og svo mætti ég fara fram.
Þegar hann hafði lokið sér af var farið með hraði um borð í skipið og káetuhurðin hjá bátsmanninum opnuð, stokkið inn en vinurinn sem hafði dregið út á sér liminn og reyndi að slá honum í andlitið á bátsmanninum sem hafði legið sofandi í koju, segðu svo að ég fái aldrei að ríða helvítið þitt öskraði vinurinn, hann er meira að segja blautur enn þá eða finnur þú það ekki.
Bátsmaðurinn hafði hrokkið upp með andfælum og gjörsamlega trylltist af reiði um stund, þú lemur mig í andlitið með lekanda sýktum tittlingnum helvítið þitt öskraði hann og sló til vinarins en sá var stærstur um borð og handleggjalangur, hann ýtti bara bátsmanni frá sér sem fisi og hló en 5 mínútum seinna sættust þeir eftir að ég hafði staðfest djarflega frásögn af heimsókninni í hóruhúsið, nokkrum dögum seinna var sýktur vinurinn sprautaður hægt og rólega með penicillin í þjóhnappinn.
Ég var kallaður sem vitni upp í brú og til að sjá hvernig færi fyrir svona sora lifandi mönnum, bátsmaðurinn glotti á meðan nálin gekk rólega inn í vöðvann en stýrimaðurinn fylgdist með.
Við lögðumst við ankeri fyrir utan Puerto Cortes og vorum að bíða eftir að samningar um frekari flutninga næðust, við fórum að hreinsa og menja skipið af fleka þar sem skipið var tómt og sjórinn spegilsléttur, ég fór út að lunningunni til að rétta þeim kalda bjóra og færa kaðlana sem notaðir voru til að færa flekann með skipshliðinni en fylgdist með strákunum fara aftur með skipinu á flekanum, þeir voru með einhvern skæting fyrr um daginn og ég beið rólegur uns þeir voru undir klósetrörinu, þá hljóp ég inn og sturtaði niður en þeir öskruðu og hótuðu mér öllu illu en hættu þegar ég sagðist skíta næst í klósettið áður en ég sturtaði niður. Við sömdum frið gegn gjaldi sem ég setti upp, því ég losaði bara kaðlana sem þeir drógu flekann með þannig að engrar undankomu var auðið af flekanum.
Stuttu seinna kom eintrjáningur frá landi og stefndi til okkar, það voru tveir ræðarar og kona með í för sem minnti á holdanaut í vaxtarlagi, þeir reru upp að skipinu og stóra kerlingin greip í kaðalstigann og byrjaði að brölta upp eftir honum, bátsmaðurinn þekkti konuna og sagði okkur að 2 stýrimaður hefði drukkið sig út úr heiminum kvöldinu áður og verið að skrölta á þessari svakalega stóru mellu, en um morguninn hafði eiginkonan komið í flugi til að heimsækja hann og ætlaði að sigla með skipinu til Canada, við stoppuðum kellinguna um leið og hún steig á þilfarið og spurðum um erindið, hún sagðist vera að skila úri stýrimannsins en hann hefði skilið það eftir á náttborðinu hennar kvöldinu áður. Bátsmaðurinn tók við úrinu og fór til stýrimanns sem varð skelfingu lostin og fyrirskipaði okkur að kasta kerlingunni fyrir borð, hann varð enn skelkaðri þegar hann heyrði óhljóðin og sá gusuna sem kom er við hentum kerlingunni fyrir borð.
Hann hafði ekki meint þetta með að kasta henni fyrir borð en við notuðum tækifærið og hlýddum fyrirskipunum aldrei þessu vant og það var ótrúlegt að sjá hvernig karlarnir á eintrjáningnum gátu fiskað kerlinguna um borð, svo jós kerlingin öllum þeim fúkyrðum sem hún kunni yfir okkur á meðan þeir réru í land og við heyrðum öskrin í henni deyja smá saman út eftir því sem karlarnir réru lengra frá okkur. Stýrimaður kom askvaðandi og æddi æstur fram og til baka á þilfarinu en kallaði okkur andskotans asna og fífl.
Hann þagnaði er konan hans kom til að sjá hvað gengi á og laug að henni að mellan hefði verið þjófótt svikasölu kvendi og fór með henni aftur inn, hann kom stuttu seinna hund fúll og var með hótanir en róaðist svo niður og sagði okkur hafa eyðilagt fyrir sér stefnumót sem hann ætti við melluna þá um kvöldið þrátt fyrir veru eiginkonunnar um borð, þvílíkur drullusokkur.

Eftir nokkurra daga legu fyrir utan höfnina í Puerto Cortes tókst útgerðinni að semja um nokkra farmflutninga en að vísu urðum við að sigla tómu skipinu frá Hondúras, fram hjá Cuba, upp með strönd U.S.A og alla leið til Kanada, sigla þar upp á milli New Brunswick og Nova Scotia, til verksmiðju sem er einhver staðar fyrir utan smábæ (man ekki lengur nafnið) á Nova Scotia, stoppa þar í 8 klst til að taka olíu, ásamt farm af dufti sem kallast China Clay og er notað til framleiðslu á postulín, ljósaperum, tannkremi, o.f.l, sigla þeim farm yfir til Belgíu, fara þaðan með áburðarfarm til Waterford á Írlandi og sækja svo farm til Bretlands.
Fyrirhuguð sigling með vopnafarm frá Svíþjóð til Suður Víetnam, var blásin af vegna mótmæla heima á Íslandi en einn yfirmanna skipsins hafði óvart minnst á þennan farmflutning við eiginkonuna heima á Íslandi og þar með varð uppi mikið fjaðrafok og æsingur, enda Bandaríkjamenn byrjaðir að flýja árinu áður frá Suður Víetnam eftir ósigur sinn, eftir nokkra daga gaf útgerðin eftir fyrir Íslenskum eiginkonum og gaf samninginn frá sér en mér var sagt síðar að skipið sem tók þennan farm hefði siglt á tundurdufl og verið með síðustu skipum sem sukku í stríðinu í Víetnam, stríði sem hafði kostað yfir 3.000.000 mannslífa er því lauk endanlega 1975.
Siglingin frá Puerto Cortes til Kanada virtist aldrei ætla að enda en ég var að venju sjóveikur allan tíman frá upphafi til enda ferðar, hélt þokkalega þreki með því að bæta við matsseðilinn ½ niðursuðudós af ávöxtum á dag því sykurvatnið í þeim virtist bæti þrek en aðalkosturinn var sá að sama góða bragðið kom hvort sem þetta var á niður eða uppleið um kokið.
Daginn eftir að við lögðum af stað var ráðist í að strengja segl á milli lesta og fylla í með sjó, til að geta haft útilaug og kælt skrokkinn aðeins, það voru allir svo uppteknir við framkvæmd þessa að við urðum hálf hissa, þegar við mættum öðru fraktskipi sem sigldi rétt hjá okkur og þeytti flautur skipsins með miklum móð, þá áttuðu menn sig á því að það yrði einhver ófullur að vera upp í brú til að stýra skipinu þó við værum komnir langt út á haf, þetta fannst samt engum sérstakt tiltökumál þann daginn.
Daginn eftir fórum við að huga að björgunarbátum skipsins, langaði til að geta sett þá út ef illa færi og var þetta framtak ekki til komið frá yfirmönnum skipsins, heldur bátsmanni og hásetum, það segir allt um traust og tiltrú undirmanna til yfirmanna skipsins eftir undangengin ævintýri, skipið hafði nefnilega strandað þrisvar í Panamaskurðinum, og rak Lóðsinn fyrir rest skipstjóra úr brúnni eftir síðasta strand skipstjórans sem var sauðdrukkinn eins og svo oft.
Gálgarnir sem áttu að losna fram og út fyrir lunninguna á skipinu svo björgunarbátarnir gætu sigið í sjó voru svo kolryðgaðir af notkunar og umhirðuleysi að við vorum í 3 daga að losa um gálgana stjórnborðsmegin til að hægt væri að koma bátnum út fyrir lunninguna, svo fór dagur í að laga útbúnaðinn til að slaka bátnum í sjó, eftir þetta afrek ákváðum við að láta björgunarbátinn á bakborð eiga sig því það væri meira gagn í flekanum sem við notuðum til málningarvinnu en þessu rusli, því við efuðumst um að bátarnir flytu ef við kæmum þeim í sjó tímanlega, þá var brunaslangan um borð notuð til að spúla þilfar og lest, sökum þess að engin önnur nothæf slanga var um borð.
Rétt eftir að við fórum hjá Kúbu kom svífandi hver torfan eftir aðra af flugfisk, skepna sem er aðeins stærri en loðna, minni en síld en með stóra fram ugga sem virka sem vængir þegar fiskurinn er að flýja ránfiska sem elta, það var gjóla og öldugangur þannig að kjör aðstæður voru fyrir flugfisk til flugs, nokkrir lentu upp á dekki skipsins, þannig að við gátum skoðað þá en yfirleitt svifu þeir frekar stutt, fór eftir vindi hvað flugið tókst vel.
Þegar siglt var upp með strönd Floridaskagans, stóð maður lengi á dekkinu og horfði á hvít háhýsin hverfa út sjóndeildarhringinn til beggja átta og engan enda taka, þegar skyggja tók var ströndin sem eitt samfellt ljósahaf til beggja átta og mikið voðalega var Reykjavík annars smá í samanburði.
Þessi langa sigling var þreytandi en gekk samt þokkalega fyrir sig því flestir þekktust lítið og höfðu frá ýmsu að segja, auk þess sem við vorum dugleg við að deyfa okkur með skemmtisögum og áfengisneyslu í óhófi í stað þess að ræða liðna atburði, slíkt var ekki til siðs og bara kerlingar sem sýndu tilfinningar eða virtust þurfa að velta sér eitthvað upp úr liðnum atburðum og hryllingi, við sem komum landleiðina um borð vorum að mörgu leiti eins og önnur áhöfn í sama skipi og hinir sem voru fyrir um borð í Puerto Cortes skildu ekki né gátu skilið okkar upplifun á hörmungum fellibylsins FIFI.
Við komum um hádegi til hafnar á Nova Scotia við einhverja verksmiðju sem var ca 50 km fyrir utan einhvern smábæ, þar fengum við olíu og strax var byrjað að lesta skipið af einhverju því ógeðslegasta efni sem hægt var að fá, China Klay er eins og fínt hveiti sem smýgur allsstaðar inn og lagðist sem ryk yfir allt skipið og komst inn um flest op, svo varð þetta sem leðja í fyrstu ef það blotnaði en varð svo sem steypa er það hafði drukkið í sig rakann og þornaði aftur.
Við sluppum í land þrír og tókum leigubíl til bæjarins til að kaupa ýmsa smávöru sem vantaði, á leiðinni sáum við fullt af krökkum sem voru klædd fyrir hrekkjavöku og virtust ganga hús úr húsi til að safna sælgæti og ávöxtum, við fórum að spyrja bílstjórann um þennan sið en hann sagði okkur að verið væri að tala um að banna þetta því einhverjir sjúkir einstaklingar væru að setja rakvélablöð inn í eplin sem krakkarnir fengju, svo settu börnin eplin í bala fylltan af vatni, bundnar væru saman hendurnar fyrir aftan bak og þau kepptu svo í að eta eplin sem flytu á vatninu, tvö undanfarin ár hefðu börn lent í að bíta í epli sem innihéldi rakvélarblað og skorið allt munnholið, hann var fyrir rest orðinn svo reiður út í samborgarana að við höfðum áhyggjur
Þegar við komum aftur að skipinu og gengum upp landganginn leit maður ósjálfrátt hafnarverkamennina öðrum augum en við landgöngu, eftir 8 klst stopp voru landfestar leistar og lagt af stað í siglinguna yfir Atlantshafið.
Eftir 2 til 3 daga á siglingu fór andrúmsloftið um borð að versna verulega, menn höfðu svo sem pexað í fyrri ferðinni frá Hondúras til Kanada, en nú rifust menn og tóku langar fýlu samfara aukinni drykkju og stuttum tilsvörum, brestirnir voru byrjaðir að sjást og vanlíðan manna var að verða óbærileg, sjóveikin fylgdi mér áfram eins og hún gerði alla tíð en það var orðið svo yfirspennt andrúmsloftið að sá er missti saumnál úr hönd var nánast tekin andlega af lífi um borð.
Við komumst til Andverpen í Belgíu án þess að neinn væri drepinn og gátum losað skipið, skroppið á krárnar og tekið svo áburð í lestina til að sigla með til Írlands.

Við vorum komin nálægt ströndum Írlands að kvöldi en ég hafði verið upp í brú og var að fara í koju, engin lýsing var á neðri ganginum og mér fannst einkennileg lykt í loftinu en þegar ég steig niður úr síðasta þrepinu og ætlaði að teygja mig í slökkvara, rann ég til á einhverju sleipu og féll niður, ég brölti á fætur undrandi og kveikti ljósið á ganginum sem var þakin blóði og slettur upp á veggina, einhvern veginn vissi ég strax úr hverjum það var og hraðaði mér að hurðinni á klefanum við enda gangsins sem var ekki alveg lokuð, þar fyrir innan var brytinn okkar liggjandi á gólfinu, búin að skera sundur æðarnar á báðum handleggjunum en hún hafði greinilega gert það yfir vaskinum því hann var fullur af blóði, ég vafði um handleggina en náði svo strax í bátsmann og kallaði í aðra skipsverja, við lyftum henni upp í rúmmið og ég fór ð sækja stýrimann sem jafnframt gekk í störf læknis um borð, það var lítið sofið um borð þá nóttina og reynt var að auka hraða skipsins til Waterford á Írlandi, en þar beið sjúkrabíll og læknir sem ók með hana upp á sjúkrahús bæjarins, hún kom aftur um borð eftir sólahrings dvöl á sjúkrahúsinu.
Írskur læknir hélt fræðslufund um sjálfsmorðstilraunir og skýrði út fyrir okkur hvað væri í raun að gerast hjá henni og hvernig best væri fyrir okkur að koma fram við hana nú þegar hún tæki aftur við matseldinni, hann kallaði til mín þegar hann var að fara og vildi spjalla, hann ræddi við mig um stund og sagðist koma aftur um borð fyrir brottför til að sjá hvort ekki væri allt í lagi og ástandið orðið eðlilegt.
Að venju var farið á krárnar í Waterford, drukkið ótæpilega og gerðar allskonar gloríur, strætisvagn var stoppaður á miðri götu og kysstur rembingskossi, pissað var í skúringarfötu sem stóð upp við einn barinn þegar daman fyrir innan barborðið neitaði okkur um klósettferð, og ég sem hafði hringt til Íslands gat fátt sagt vegna þess hvað mér fannst þetta svo fyndið rugl að horfa á manninn pissa í fötuna á meðan hann var að tala við stúlkuna á barnum sem virtist ekki átta sig á því hvað hann var að gera, ég vaknaði svo í járnbrautarlest kvöldið eftir og var víst lagður af stað yfir Írland, ég hafði ekki miða alla leið og var setur út á brautarstöð, sem virtist vera bara brautarskúrinn og einhverskonar húsaþyrping rétt hjá, ég gekk að stærsta húsinu og byrjaði að berja á hurðina sauðdrukkinn en eftir töluverðan tíma opnaðist gluggahleri á efri hæðinni og þar var eldri maður með haglabyssu í hönd, sem gargaði á mig sem óður væri helling af fínum hótunum og formælingum, hann var greinilega bæði forn og illur í skapi.
Mér tókst að sannfæra karlinn um að best væri að skjóta mig ekki heldur leifa mér að hringja eða hringja sjálfur á lögregluna. Hann skellti hleranum og ég settist á hlaðinn garðvegg við veginn, löngu seinna kom lögreglan akandi og ég falaðist eftir fari til byggða en þeir keyrðu mig á lögreglustöðina og hringdu í skipamiðlarann sem kom klukkustundum seinna til að ná í mig, lögregluþjónunum leiddist greinilega því við drukkum kaffi spiluðum og ég sagði þeim einhverjar sögur af siglingum okkar á meðan við biðum, enginn hringdi á þessa stöð né virtist vera annað við að vera hjá karla greyjunum en að bíða eftir að ég væri sóttur, skipamiðlarinn var ekki kátur og sagði mig vandræðagrip sem væri búin að vera á Írlandi í rúman sólahring og bæði stöðva strætisvagn og lest, ásamt því að vera orðin góðkunningi lögreglunar í borg sem sveit, hann myndi ekki bjarga mér úr klípu aftur.
Eftir 2-3 daga stopp í Waterford var komið að brottfarardegi en skipið hafði verið nánast kyrrsett á meðan Brytinn okkar jafnaða sig aðeins og hún væri orðin nógu hress til að taka til starfa, Írski læknirinn kallaði skipstjórann á fund sinn um borð og bað mig um að koma líka, þar hótaði hann skipstjóra öllu illu ef ég yrði ekki settur í land og flogið til Íslands en án þess að ég hefði tekið eftir því sjálfur var næringarskortur vegna langvarandi sjóveiki búin að ganga svo nærri mér að læknirinn taldi ólíklegt að ég kæmi lifandi úr fyrirhugaðri ferð til Víetnam, þeir gerðu samkomulag skipstjóri og lækni um að mér yrði hent í land á Englandi en þangað var ferðinni heitið til að sækja næsta farm.
Siglingin yfir til Englands sem venjulega tekur innan við sólahring tók okkur 3 sólahringa og einn sólahringinn færðist skipið rúmar 3 sjómílur afturábak vegna veður hamsins á Írska hafinu, þetta sund á milli landana virkar stundum sem trekkt fyrir vind og magnar hann upp í ógnvænlega storma, skipstjóri gaf ekkert fyrir viðvaranir heimamanna um veðrið og ákvað að sigla en öryggi var honum ekki ofarlega í huga miðað við kynnin sem maður hafði af hans framgöngu.
Ég fór í land ásamt vinkonu minni Brytanum, en hún var öll að koma til og fullar sættir komnar á milli hennar og unnustans, hún hafði tengst inn í aðalsstétt Bretlands með fyrra hjónabandi og voru því opnaðar dyr fyrir henni sem öðrum voru lokaðrar, hún fór með mig á stærðar óðalssetur eða sveitarklúbbs aðalsfólks og gekk þar inn eftir að hafa kynnt sig en dró mig með sér um allt, sagði mig vera son sinn og því gjaldgengan í þetta samkvæmi þar sem allir voru í kjól og hvítt eins og í bíómynd og virtist rigna upp í nefið á flest öllum, einhverjir þekktu frúnna samt og hún lék vel.
Þarna fyrir utan var dansleikur og mikið af ungu fólki á svipuðum aldri og ég að dansa einhverja voða einkennilegan dansa, þetta mynnti á gamaldags samkvæmisleik frekar en dans, þegar aðeins var liðið á kvöldið lét aðalsfólkið opna breiðar hurðirnar út í garðinn og þjónar með stóra bakka fulla af sundurskornum samlokum gengu fram tröppurnar og til fólksins úti sem þáði samlokurnar með þökkum, klappaði og bugtaði sig eins og þjónar á meðan aðalsliðið gekk fram á efstu tröppu og kinkaði kolli af mikilli hógværð, unga fólkið söng lagstúf sem virkaði eins og þakkarávarp, aðalsliðið klappaði mjög létt eins og af neyð og gekk aftur inn að alsnægtaborðum samkvæmisins en þjónarnir lokuðu hurðum, ég hafði gengið út með þessu liði og gekk niður tröppurnar þegar þau fóru inn því unga fólkið var miklu fjörugra en sýndarveruleika lið aðalstitlana, stuttu seinna fór ég um borð í skipið frekar en hanga með þessu fólki sem ég átti enga samleið með en daginn eftir fékk ég flugseðilinn afhendan og skipamiðlarinn sá um að koma mér til á næsta flugvöll þar sem ég fékk flug heim til Íslands.
Ég kom heim á ísilagða flugbraut Keflavíkur og tók leigubíl heim í Kópavoginn, enginn var heima og ég náði í lykilinn sem var ávallt geymdur á vísum stað og gekk inn, ég lagði sjópokann frá mér og settist í stól sem var í stofunni, hef líklega sofnað, því ég vaknaði við að fjölskyldan gekk öll inn í stofuna greinilega ný komin úr veislu, þarna stóðu fósturforeldrarnir, uppeldis bræður mínir tveir og unnusta annars þeirra og störðu eins og við hefðum aldrei hist áður, annar bróðirinn spurði, hver ert þú og hvernig komstu inn.
Þessi spurning og framkoma þeirra sló mig sem hvert annað kjaftshögg og ég var orðlaus, það leið smá stund á meðan ég var að átta mig á því hvað breytingin á útliti mínu var mikil, fermingardrengurinn og sprelligosinn sem nánast fór erlendis í grænum pluss jakkafötum með slaufu kom heim nokkrum mánuðum síðar sem útlifaður og skeggjaður í gallabuxum og jakkaræfil með viðmót manns sem var alveg sama um flest.
Fannst allt innantómt eða hégómi og skildi ekki endalaust vælið yfir nokkrum mannslífum vegna snjóflóðs í Neskaupsstað sem mér fannst vel sloppið miðað við Honduras, ég sá fátt fyndið né áhugavert og var sem hol skel.
Öll brotnuðum við fyrir rest, sumir reyndu sjálfsmorð sem ákall á hjálp, aðrir drukku sig í hel eða enduðu á Vog en aðrir frusu tifinningalega og bældu minningarnar eins og niðursoðnar sardínur í dós, það tók mig langan tíma að vinna úr þessu.
Og hér er ég 37 árum síðar, tiltölulega óbrjálaður víst, en kannski er það ótímabær yfirlýsing fyrst ég skrifa þessa sögu og birti.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Óskar Þorkelsson

mögnuð saga og hrífandi. mikil lífsreynsla fyrir ungan mann sem eflaust hefur markað sín spor á þig sem persónu æ síðan.

Takk fyrir að miðla þessu með okkur.

Óskar Þorkelsson, 20.2.2011 kl. 16:44

2 Smámynd: Þorsteinn Valur Baldvinsson

Takk fyrir umsögnina Óskar

Þorsteinn Valur Baldvinsson, 22.2.2011 kl. 01:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband