Fimmtudagur, 31. október 2013
Að vekja hagkerfið okkar
Vilji Íslendingar vekja eigið hagkerfi og minnka atvinnuleysi verður að vekja og styrkja neitendur sem kaupa vörur og þjónustu með því að auka þeirra tekjur og umsvif með launahækkunum sem og skattalækkunum.
Það er almenningur sem heldur hagkerfinu gangandi með athafnasemi, eignafólkið stöðvar hjól efnahagslífsins með því að safna og stöðva tilfærsluna á milli einstaklinga sem og fyrirtækja.
Peningar sem ekki eru að færast á milli einstaklinga og fyrirtækja í sífellu eru í raun teknir úr umferð og virka því sem bremsur eða ankeri á hagkerfið.
Til að vega upp á móti tekjutapi ríkissjóðs vegna skattalækkana á lág og millitekjufólk þarf að hækka skattaálögur á eignir og hátekjufólk, sá þjóðfélagshópur skapar ekki vinnu heldur sogar til sín arð og afrakstur atvinnulífsins samhliða því að njóta nánast ókeypis þeirrar þjónustu sem búið er að byggja upp með sköttum lág og millitekjufólks í gegn um árin.
Við komumst aldrei upp úr efnahagslægðinni á meðan stefnan er að lækka skatta og bera fé á efnaðan bremsuhópinn, en hækka skatta og taka fjármagnið af drifkraftinum sem er millistéttin og tekjulágir einstaklingar samfélagsins sem þurfa að byggja og kaupa vörur sem og þjónustu.
Það ræður enginn fólk í vinnu nema neyðast til þess vegna eftirspurnar eftir vöru og eða þjónustu, þá fyrst er ráðið fólk er ekki er hægt að verða við þessum óskum nema með því að bæta við starfsfólki.
Það byggir enginn sem ekki hefur atvinnu eða tekjur og það kemur enginn fyrirtæki af stað nema að í efnahagslífinu sé til staðar ákall eftir þeirra vöru eða þjónustu.
Þeir sem eiga miklar eignir og mikið fé eru ekki að skapa eitt né neitt því þeir eru orðnir sem yglur á efnahagslífinu og draga úr því bæði mátt og getu til að fullnægja eigin óseðjandi hungri í eigur og fé, Það má í raun skilgreina þessa söfnunaráráttu sem andlegan sjúkdóm því margir þessir einstaklingar eru orðnir fangar eigin velgengni í sífelldum ótta um eignir og auðæfi.
Við þurfum að skilgreina hvað er nóg af eignum og tekjum fyrir einstakling og skattleggja til samræmis við það viðmið þannig að sá fátæki sé skattlaus en sá ríki beri viðeigandi skatta, það má svo stýra með skattakerfinu fjármagni inn á þau svið sem hvetja til sköpunar og athafna okkur öllum til hagsbóta.
Það má samt ekki taka burt hvatan til að byggja upp né ávinninginn frá fólki og því þyrfti að vera til staðar umbun fyrir þá sem afla vel, sú viðurkenning gæti verið fólgin í ýmsum hlunnindum sem og eða í félagslegu formi.
Sú fullyrðing að hækkun lágmarkslauna auki atvinnuleysi hefur reynst röng miðað við reynslu Bandaríkjamanna, sjá meðfylgjandi graf.
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Bloggar, Fjármál, Kjaramál | Breytt 10.12.2013 kl. 09:55 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.