Sunnudagur, 19. apríl 2009
Mér finnst heiðarleg framkoma skipta máli
Mér finnst gaman í pólitík og sérstaklega gaman að hitta fólk sem hefur skoðanir á viðfangsefninu, og vill gjarnan eiga samtal um málefnin við sem flesta.
Samt er eitt sem fer alveg afskaplega illa í mig og það eru beinar árásir á einstaklinga sem eru jafnvel ekki viðstaddir til að verja sig og svo þessi óþolandi frekju og ruddaskapur að halda orðinu eins lengi og hægt er til að eyða upp tíma þeirra sem er manni ekki sammála, í stað þess að skiptast á skoðunum með fullri virðingu fyrir þeim sem maður á samtal við til að allir geti skýrt frá skoðunum.
Það er kjósenda að taka ákvörðun um hver á að fá atkvæðið en ekki frambjóðenda að reyna með öllum ráðum að koma í veg fyrir málflutning andstæðingsins, slíkt er gróf nauðgun á lýðræðinu og vanvirðing á skoðunum og rétti kjósenda sem eiga fulla virðingu skilið óháð skoðunum.
Björgvin G. Sigurðsson fyrrverandi viðskiptaráðherra er í framboði í Suðurkjördæmi, maður sem hafði kjark og þor til að segja af sér undir þeim formerkjum að hann væri að axla ábyrgð einn ráðherra og mætir svo á framboðsfundum til að eiga samtal við kjósendur þrátt fyrir oft óblíðar móttökur, hann er kurteis en bara með ranga pólitík, ég tek ofan fyrir honum sem manneskju að standa í þessari baráttu.
Það er ekki venjan að bera blak af andstæðingum og telst arfa vitlaus pólitík en það eiga allar manneskjur skilið virðingu og ég hef skömm á þeim frambjóðendum sem bera ásakanir á manninn á fundum þar sem hann er ekki viðstaddur til að verja sig og það er ekki til að efla tiltrú á heiðarleika annarra alþingismanna þegar menn vinna svona.Ég verð líka að segja eins og er að álit mitt á blaðamönnum er nánast að fara í ræsið eftir að hafa fylgst með bullandi hlutdrægni þeirra og vísvitandi rangtúlkunum margra fréttamanna.
Ég nefni sem dæmi að af 126 frambjóðendum á listum lýðræðishreyfingar er aðeins einn sem heitir Ástþór Magnússon og samt erum við öll sögð vera framboð þessa einstaklings sem er í Reykjavíkurkjördæmi norður, er ekki rétt til samræmis að tala um framboð Jóhönnu Sigurðardóttur og Bjarna Benediktssonar í stað þess að tala um flokka, þá væri allavega samræmi í málflutningi og virðingu fyrir skoðunum kjósenda, í stað þess að reyna vísvitandi að blekkja kjósendur með svona framkomu við fólk sem kýs að vera ekki flokkur.
Ríkisstarfsmenn sem jafnframt eru blaðamenn hafa ríka ábyrgð og skyldur til að flytja landsmönnum réttar upplýsingar, án þess að reyna með villandi upplýsingagjöf að hafa áhrif á kjósendur sem eru að mynda sér skoðanir byggðar á þeim upplýsingum sem opinberir fréttamiðlar birta, því ber þeim skilda til að starfa faglega og gæta jafnræðis í skiptingu á tíma milli ólíkra framboða sem aldrei fyrr.
Það er líf eftir kosningar og ég hvet alla til að hafa það í huga en ekki gleyma sér í hita umræðunnar, frambjóðendur verða að benda kjósendum á lausnir en ekki fara að snúast sem vindrellur í málflutningi til að selja sjálfan sig á þing og ýmist yfirbjóða eða rakka niður mótherjana.
Ég er bara ég og mun segja frá mínum skoðunum sem kjósendur svo dæma um sem vitrænar lausnir eða vitleysa og svo fæ ég dóm kjósenda á laugardaginn 25 Apríl.
Hvort sem ég kemst inn eða ekki get ég verið sáttur við eigin orð og gerðir því við komum fram sem persónur hjá lýðræðishreyfingunni og þurfum ekki að segja annað en það sem í brjósti okkar býr, enginn samræmdur málflutningur eða sala á skoðunum annarra en frambjóðandans sjálfs, þessu fylgir frelsi.
XP SuðurkjördæmiMeginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Bloggar, Menntun og skóli, Trúmál og siðferði | Facebook
Athugasemdir
Nú hafa lög um persónukosningar ekki verið samþykkt. Ef þetta verður kosningasigur hjá ykkur í suðurkjördæmi, hver fer á þing fyrir ykkar hönd?
Óli Ágúst (IP-tala skráð) 19.4.2009 kl. 16:43
Óli Ágúst
Við hvetjum fólk til að númera framboðslistana sem eru í stafrósröð að öðru leiti en því að talsmaður lista er efstur.
Númeri fólk ekki heldur kýs bara listabókstafinn förum við inn á Alþingi eftir þeirri röð, efsti maður á listanum fer fyrst inn og svo telst niður röðina.
Þorsteinn Valur Baldvinsson, 19.4.2009 kl. 19:32
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.