Að ræna góðum leiðara

Fannst leiðarinn svo góður að ég tók mér það leifi að birta hann hér á blogginu mínu.

  

Þau sleppa við kreppuna

Jón Trausti Reynisson

jontrausti@dv.is

Leiðari Miðvikudagur 19. nóvember 2008 kl 08:17

Guðni Ágústsson gerir það sem flestir Íslendingar geta ekki látið sig dreyma um, hann flýr fimbulvetur kreppunnar og fer í eilíft sumar á Kanaríeyjum með súperlaun. Flótti Guðna afhjúpar þá skelfilegu staðreynd að ráðamenn á Íslandi hafa ekki sömu hagsmuni og íslenska þjóðin.

Ráðamenn hafa komið ár sinni þannig fyrir borð að þeir eru flestir ósnertanlegir af kreppunni. Þeir hafa framúrskarandi eftirlaunakjör og þurfa ekki að kvíða því að þjóðfélagið kollvarpist. Þeir líta svo á að þeir þurfi ekki einu sinni að sæta ábyrgð fyrir að stór hluti þjóðarinnar breytist í skuldaþræla í fjárhagsnauðum. Allir eru jafnir á Íslandi, en sumir eru jafnari en aðrir. Og það eru einmitt þeir sem eru ósnertanlegir fyrir kreppunni sem ákveða hver á að taka höggið. Niðurstaðan er komin: Skuldsettir húsnæðiseigendur, barnafólk og eignalausir eldri borgarar.

Meginþorri alþingismanna er miðaldra fólk, helst karlmenn, sem flestir hverjir skulda lítið sem ekkert. Hækkun verðtryggðra lána snertir þá lítið. Fall á fasteignamarkaði gerir þá ekki innlyksa í eigin húsnæði. Aukið atvinnuleysi snertir þá ekki neitt. Hækkun verðlags snertir þá að mjög takmörkuðu leyti, þar sem þeim tekst jafnan að hækka laun sín til samræmis við hana. Alþingismenn og stjórnendur stofnana eru flestir ónæmir fyrir kreppunni. Og það sem verra er, þeir virðast ósnertanlegir fyrir lýðræðislegu aðhaldi fyrir utan einn dag á fjögurra ára fresti.

Meginþorri alþingismanna þarf aldrei að kvíða framtíðinni. Hækkun stýrivaxta bítur lítið á ráðamönnum okkar. Þvert á móti eru flestir þeirra eignamenn sem hagnast á hærri vöxtum. Höfuðstóll þeirra rýkur upp. Þeir munu ekki lepja dauðann úr skel við eftirlaun. Þeir munu ekki tapa lífeyrisréttindum sínum. Ef þeir missa vinnuna gegnum lýðræðislegar kosningar hafa þeir sérstaka samtryggingu meðal flokksfélaga sinna. Þeir geta orðið sendiherrar, stjórnendur stofnana, aðstoðarmenn þingmanna, seðlabankastjórar eða hvað sem hugurinn girnist. Ef allt um þrýtur fara þeir til Kanarí á þeim ofureftirlaunum sem þeir úthlutuðu sjálfum sér.

Þetta fólk hefur ekki sömu hagsmuni og þjóðin. Hvernig getum við treyst þeim til að gæta hagsmuna sem þau hafa ekki? Við erum ein í sökkvandi skipi, skipstjórinn og stýrimennirnir eru komnir í björgunarbátana.

Mín eftirskrift: 

Er ekki kominn tími á að skipta þessu fólki út.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Haraldur Bjarnason

Þetta er öflugur leiðari hjá stráknum.

Haraldur Bjarnason, 20.11.2008 kl. 10:29

2 Smámynd: Óskar Þorkelsson

jú, út með þetta pakk ! 

Óskar Þorkelsson, 20.11.2008 kl. 11:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband